Íslenski boltinn

Ágúst lætur staðar numið hjá Gróttu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Gylfason tók við Gróttu haustið 2019.
Ágúst Gylfason tók við Gróttu haustið 2019. vísir/vilhelm

Ágúst Gylfason lætur af störfum sem þjálfari karlaliðs Gróttu í fótbolta eftir tímabilið.

Í tilkynningu frá Gróttu segir að þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun félagsins og Ágústs.

„Knattspyrnudeild Gróttu og Ágúst Gylfason hafa ákveðið í sameiningu að Ágúst láti af störfum fyrir félagið eftir að yfirstandandi keppnistímabili lýkur. Félagið mun að tímabilinu loknu kveðja Ágúst með virktum og söknuði og óskar honum velfarnaðar í hans störfum í framtíðinni,“ segir í tilkynningu Gróttu.

Ágúst tók við Gróttu fyrir síðasta tímabil sem var það fyrsta hjá liðinu í efstu deild. Seltirningar enduðu í ellefta og næstneðsta sæti Pepsi Max-deildarinnar og féllu.

Grótta er í 5. sæti Lengjudeildarinnar með 29 stig eftir nítján leiki. Í síðustu þremur umferðunum mætir Grótta Víkingi Ó., Aftureldingu og ÍBV.

Fyrr í þessari viku var greint frá því að Pétur Theodór Árnason, markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar, myndi fara til Breiðabliks eftir tímabilið. Hann hefur skorað átján mörk í Lengjudeildinni í sumar, einu marki meira en Grindvíkingurinn Sigurður Bjartur Hallsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×