Það var svo sem allt klappað og klárt varðandi vistaskipti þann 27. ágúst er það var tilkynnt að hinn 36 ára gamli Ronaldo væri að ganga í raðir Manchester United á nýjan leik. Það átti hins vegar eftir að krota undir pappíra og standast læknisskoðun.
— Manchester United (@ManUtd) August 31, 2021
@Cristiano is back!#MUFC | #RonaldoReturns
Ronaldo flaug eðlilega í gegnum hana og var ekki lengi að skrifa undir samning sem gerir hann að best launaða leikmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Hann gaf svo út yfirlýsingu á Instagram-síðu sinni þar sem hann fór yfir hversu heitt hann elskar Manchester United og að vistaskiptin séu fyrir Sir Alex Ferguson, fyrrum þjálfara hans hjá félaginu.
„Allir sem þekkja mig vita hversu mikið ég elska Manchester United. Ár mín hjá félaginu voru hreint út sagt stórkostleg og það sem við áorkuðum saman er skrifað með gullstöfum í sögu þessa frábæra félags.“
„Ég get ekki útskýrt þær tilfinningar sem búa mér í brjósti núna er endurkoma mín á Old Trafford er tilkynnt um allan heim. Það er líkt og draumur sé að rætast. Í öll þau skipti sem ég hef snúið aftur á Old Trafford sem mótherji félagsins hef ég samt sem áður fundið mikla ást og virðingu frá fólkinu í stúkunni. Þetta er 100 prósent það efni sem draumar eru gerðir úr.“
„Fyrsti deildarbikarinn minn, fyrsti FA bikarinn, fyrsta skiptið sem ég var valinn í portúgalska landsliðið, fyrsti Meistaradeildartitillinn, fyrsti gullskórinn og fyrstu Ballon d´Or verðlaunin komu öll þökk sé sérstakri tengingu minnar við Rauðu Djöflana. Sagan hefur verið skrifuð í gegnum árin og sagan verður nú skrifuð á nýjan leik, ég lofa ykkur því!“
„Ég er hér! Ég er kominn aftur þangað sem ég á heima! Gerum þetta allt einu sinni enn!“
„PS. Sir Alex, þessi er fyrir þig …“ sagði Ronaldo að endingu í Instagram-færslu sinni.
Títtnefndur Sir Alex hringdi í Ronaldo þegar hann heyrði að Manchester City væru að íhuga að bjóða Portúgalanum samning. Eftir það símtal var aldrei spurning hvað væri að fara gerast og nú er ljóst að Ronaldo mun klæðast rauðu treyjunni á ný.