Enski boltinn

Full­yrða að Ron­aldo sé launa­hæsti leik­maður í sögu ensku úr­vals­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo á EM í sumar.
Ronaldo á EM í sumar. Alex Livesey/Getty Images

Það er meira an aðeins nostalgía eða sú þrá að koma Manchester United aftur í hóp bestu liða Evrópu sem dró Cristiano Ronaldo „heim“ til Manchester, heim á Old Trafford. Portúgalinn fær einnig ágætlega borgað fyrir að spila með félaginu.

Síðustu dagar hafa verið einkar áhugaverðir þegar horft er til Manchester-borgar í Englandi. Ofurstjarnan Cristiano Ronaldo virtist um stund vera á leið frá Juventus til Manchester City en ákvað svo að skrifa undir hjá sínu gamla félagi, Manchester United.

Stuðningsfólk Man United virtist vart vita hvert það ætlaði er fréttirnar bárust enda Ronaldo enn goðsögn hjá félaginu. Hann var aðalmaðurinn bakvið það að liðið vann Meistaradeild Evrópu árið 2008 og komst í úrslit ári síðar.

Ronaldo er nú snúinn aftur á Old Trafford en ástæðurnar eru margar. Hann er vissulega aðdáandi félagsins, langar að koma því aftur á toppinn en hann fær einnig ágætlega vel borgað fyrir þjónustu sína.

Raunar er það svoleiðis að Ronaldo er launahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar samkvæmt heimildum Telegraph Sport. Talið er að hinn 36 ára gamli Ronaldo fái meira en 560 þúsund pund á viku fyrir að spila með Manchester United. Það er upphæðin sem Alexis Sanchez fékk á sínum tíma hjá félaginu.

Forráðamenn Man Utd vonast þó til að Ronaldo standi sig betur en Sanchez sem stóð engan veginn undir væntingum.

Raphaël Varane, samherji Ronaldo hjá Man Utd, var um stutta stund launahæstur með 400 þúsund pund á viku en Ronaldo hefur skotið honum ref fyrir rass. Hvorugur þeirra er þó nálægt Lionel Messi í launum en hann fær slétta milljón punda á viku fyrir að spila með París Saint-Germain.

Ronaldo skrifaði undir tveggja ára samning við Manchester United með möguleika á ári til viðbótar að því loknu. Það verður því forvitnilegt að sjá hvort hann sé peninganna virði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×