Erlent

Stofnandi Theranos segist hafa verið beittur andlegu ofbeldi

Kjartan Kjartansson skrifar
Elizabeth Holmes í alríkisdómshúsi í Kaliforníu árið 2019. Hún er sökuð um að blekkja fjárfesta, lækna og sjúklinga með loforðum sem engin innistæða var fyrir.
Elizabeth Holmes í alríkisdómshúsi í Kaliforníu árið 2019. Hún er sökuð um að blekkja fjárfesta, lækna og sjúklinga með loforðum sem engin innistæða var fyrir. Vísir/Getty

Elizabeth Holmes, stofnandi blóðrannsóknafyrirtækisins Theranos, heldur því fram að forseti fyrirtækisins og þáverandi kærasti hennar hafi beitt hana andlegu ofbeldi. Þau eru bæði ákærð fyrir stórfelld svik og blekkingar.

Theranos og Holmes voru hafin upp til skýja þegar hún boðaði byltingu í blóðprufum og rannsóknum. Holmes hélt því fram að tækni sem fyrirtækið þróaði gerði mögulegt að gera hundruð mismunandi rannsókna með aðeins einum blóðdropa. Varð hún að stjörnu í Sílikondal í Bandaríkjunum og var henni jafnvel líkt við Steve Jobs, stofnanda tæknirisans Apple.

Tæknin stóð þó aldrei undir digurbarkalegum yfirlýsingum Holmes sem hætti í Stanford-háskóla til að stofna sprotafyrirtækið þegar hún var nítján ára gömul. Theranos dó drottni sínum þegar hún og Ramesh „Sunny“ Balwani, forseti fyrirtækisins, voru bæði ákærð fyrir að blekkja fjárfesta, lækna og sjúklinga með fölskum loforðum.

Holmes og Balwani voru par á sínum tíma. Nú segir Reuters-fréttastofan að í greinargerð sem lögmenn Holmes lögðu fram í máli hennar haldi hún því fram að Balwani hafi beitt sig andlegu ofbeldi á tímabilinu sem svikin fóru fram. Það skipti máli varðandi spurningar um hvort að Holmes hafi vitað af því að upplýsingar um fjárhag Theranos sem fjárfestar og aðrir fengu í hendur væru rangar. Holmes er sögð ætla að saka Balwani um að hafa stjórnað sér með ofbeldinu.

Balwani hafnaði ásökununum í greinargerð sem lögmenn hans lögðu fyrir. Réttar verður yfir Holmes og Balwani hvort í sínu lagi.

Lögmenn Holmes hafa sagt að þeir ætli að kalla til sérfræðing í sálfræðilegum afleiðingum ofbeldis og áfalla sem vitni þegar réttarhöldin yfir henni hefjast.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.