Umfjöllun: ÍBV - Stjarnan 3-1 | ÍBV kemur sér úr fallbaráttu, í bili

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Eyjakonur unnu afar mikilvægan sigur í kvöld.
Eyjakonur unnu afar mikilvægan sigur í kvöld. Vísir/Bára

Það var hart barist á Hásteinsvelli í dag þegar ÍBV tók á móti Stjörnunni í 16. umferð Pepsi Max deildar kvenna. Fyrir leikinn var falldraugur yfir ÍBV en þeim tókst að bjarga sér með 3-1 sigri.

ÍBV þurfti nauðsynlega á stigi að halda fyrir þennan leik en þær hafa tapað 3 leikjum í röð og voru nánast komnar í fallbaráttuna. 

Þær sýndu það á fyrstu mínútum leiksins að þær ætluðu ekkert að gefa eftir, sérstaklega í ljósi þess hvernig síðasta viðureign liðanna fór en þá sáu þær vart til sólar og vann Stjarnan öruggan 3-0 sigur. 

ÍBV byrjaði að skapa færi strax á fyrstu mínútum leiksins og var boltinn meira og minna á vallarhelming Stjörnunnar. Stjörnukonur gáfu hinsvegar ekkert eftir og skapaðist nokkrum sinnum hætta í teig ÍBV. 

Þegar um 25. mínútur voru búnar keyrir Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz upp kantinn og gefur boltann fyrir og Þóra stendur ódekkuð inn í teig og skorar, 1-0 fyrir ÍBV. 

Við tók kafli þar sem bæði liðin skiptust á að spila vel skipulagðan bolta upp völlinn en boltinn rataði ekki í netið og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks. 

Þegar rúmlega 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir á ferðinni. Kemur sér í gott færi og setur boltann stöngin inn og jafnar leikinn, staðan 1-1. 

Tæplega 10 mínútum seinna gleymdi varnarlína Stjörnunar sér og var komin heldur hátt upp völlinn. Júlíana Sveinsdóttir gefur langan bolta fram á Olgu sem keyrir upp völlinn og kemur boltanum yfir Höllu og í netið. ÍBV komnar 2-1 yfir. 

Olga var á skotskónum í kvöld en þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum er hún ein á móti varnarlínu Stjörnunar eins og hún leggur sig, engin gerði tilraun til að reyna stoppa hana og skýtur hún boltanum aftur yfir Höllu og í netið. Staðan því 3-1 fyrir ÍBV þegar flautað var til leiksloka. 

Afhverju vann ÍBV leikinn?

ÍBV var að spila agaðan og góðan fótbolta í kvöld. Það hefur líklega verið farið yfir margt eftir síðasta leik þar sem þær lutu í lægra haldi gegn Selfossi, 6-2. Þær voru vel skipulagðar og samskiptin góð. Langt síðan maður sá ÍBV spila svona bolta. 

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá ÍBV var það Olga Sevcova. Hún var frábær í kvöld. Með tvö mörk og las leikinn vel, var alltaf búin að skila sér fram en hjálpaði svo vörninni ef þurfti. Það má sama segja með Þóru Björg sem skoraði fyrsta mark leiksins. Auður Scheving var góð í markinu og varði vel þegar að Stjörnukonur voru að koma sér í góð færi. 

Hjá Stjörnunni var það Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir sem skoraði mark Stjörnunar og jafnaði leikinn um tíma. Það kveikti í Stjörnunni þrátt fyrir að það hafa ekki skilað sér í stigum. 

Hvað gekk illa?

Vörnin hjá Stjörnunni hefur átt betri daga. Bæði í fyrra marki Olgu þar sem varnarlínan gleymir sér í heildsinni og svo í seinna markinu þegar að engin gerir einu sinni tilraun til að reyna stoppa Olgu af. 

Hvað gerist næst?

Laugardaginn 4. september kl 14:00 sækir ÍBV, Þrótt R. heim. 

Sunnudaginn 5. september kl 12:00 fær Stjarnan, Breiðablik til sín. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira