Erlent

Segir Ardern hafa skipu­lagt að kona tæki við sem for­sætis­ráð­herra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tuilaepa var sá forsætisráðherra sem lengst hafði setið á valdastóli í heiminum. Hann segir Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, hafa skipulagt að hann skyldi tapa í þingskosningum í vor.
Tuilaepa var sá forsætisráðherra sem lengst hafði setið á valdastóli í heiminum. Hann segir Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, hafa skipulagt að hann skyldi tapa í þingskosningum í vor. Vísir/Getty

Fyrrverandi forsætisráðherra Samóa eyja hefur sakað Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, um að hafa beitt sér fyrir að hann tapaði nýafstöðnum kosningum og komið fyrstu konunni í embættið.

„Ég er farinn að halda að Nýja Sjáland hafi staðið að baki þessu öllu,“ sagði Tuilaepa Sa‘ilele Malielegaoi, fyrrverandi forsætisráðherra Samóa, í viðtali við ríkisútvarp landsins á laugardagskvöld. Fréttastofa Guardian greinir frá. 

Tuilaepa hefur verið forsætisráðherra eyríkisins í rúm 22 ár. Þegar þingkosningar fóru fram í apríl var hann sá forsætisráðherra sem lengst hafði þjónað embættinu á heimsvísu, áður en hann tapaði kosningunum, sem vakti mikla athygli.

Fiame Naomi Mata‘afa bar sigur úr bítum í kosningunni og varð þar með fyrsti kvenforsætisráðherra Samóa þegar hún tók við starfinu í lok júlímánaðar. Mata‘afa var í sama flokki og Tuilaepa allt þar til í fyrra þegar hún sagði skilið við flokk hans, Mannréttindaflokkinn (HRPP), sem hefur farið með völd á Samóa í 39 ár.

Tuilaepa neitaði að viðurkenna sigur Mata‘afa í nokkra mánuði eftir kosningarnar, dró niðurstöður dómstóla um kosningarnar í efa og sakaði hana og samflokksmenn hennar um landráð. Dómstólar á Samóa hafa staðfest niðurstöður kosninganna en þrátt fyrir það dregur Tuilaepa enn úr lögmæti þeirra.

Fiame Naomi Mata'afa er fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra á Samóaeyjum.Hagen Hopkins/Getty

„Svo virðist sem forsætiráðherra Nýja Sjálands hafi viljað að Samóa hefði kvenkyns forsætisráðherra, sem hefur blindað hana frá því sem stjórnarskrá okkar leyfir,“ sagði Tuilaepa í viðtalinu á laugardag.

Að loknum kosningum í Apríl varð eiginleg stjórnmálakreppa í landinu. Til dæmis læsti Tuilaepa Mata‘afe og samflokksmenn hennar út úr þinghúsinu daginn sem átti að setja hana í embætti. Í lok júlímánaðar höfðu dómstólar í Samóa hins vegar dæmt svo að Mata‘afa og flokkur hennar FAST væri raunverulegur sigurvegari kosninganna.

Hún var sett í embætti fyrir júlílok og aðrar Kyrrahafsþjóðir hafa viðurkennt að hún sé réttmætur forsætisráðherra landsins. Ardern var meðal fyrstu þjóðarleiðtoga til að viðurkenna sigur Mata‘ame eftir að dómstólar staðfestu sigurinn.

Tuilaepa vill hins vegar meina að viðurkenning Ardern á sigri Mata‘afa, svo stuttu eftir að dómstólar tilkynntu niðurstöðuna, sé sönnun á því að Ardern hafi beitt sér fyrir sigri Mata‘afa. Ríkisstjórn Nýja Sjálands hafi þá „skipulagt þetta allan tímann“.

Ardern hefur neitað þessum ásökunum. Nýja Sjáland er helsta frændþjóð Samóa-eyja og býr fjöldi Samóamanna í Nýja Sjálandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×