Enski boltinn

Wilshere íhugar að hætta í fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jack Wilshere gæti hafa leikið sinn síðasta leik á ferlinum.
Jack Wilshere gæti hafa leikið sinn síðasta leik á ferlinum. getty/Robin Jones

Jack Wilshere, fyrrverandi leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, íhugar að leggja skóna á hilluna, aðeins 29 ára.

Wilshere er án félags eftir að samningur hans við B-deildarlið Bournemouth rann út í sumar. Í viðtali við The Athletic greinir hann frá því að hann hafi ekki fengið nein tilboð og gæti þess vegna hætt í fótbolta.

„Ég hugsa reglulega um það,“ sagði Wilshere aðspurður hvort hann hyggðist leggja skóna á hilluna. Hann segir erfitt að halda sér gangandi án félags.

„Þegar þú ert hjá félagi og æfirðu hvern einasta dag, jafnvel þótt þú sért ekki í liðinu. Þú vilt samt æfa vel og sanna þig fyrir knattspyrnustjóranum. Ég hef það ekki. Núna vakna ég á morgnana, æfi sjálfur og reyni að finna hvatningu. Og ég spyr mig sífellt um fyrir hvern ég sé að gera þetta?“

Wilshere kom við sögu í átján leikjum með Bournemouth á síðasta tímabili. Hann kom til liðsins frá West Ham United þar sem hann lék lítið vegna meiðsla.

Wilshere sló í gegn ungur að árum með Arsenal og var valinn í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni og leikmaður ársins hjá Arsenal á sínu fyrsta tímabili með Lundúnaliðinu. Meiðsli settu hins vegar stórt strik í reikning Wilsheres og hann náði aldrei sama flugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×