West Ham United vann 4-1 heimasigur á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í Lundúnum í kvöld. Leicester lék allan síðari hálfleikinn einum manni færri.
Spánverjinn Pablo Fornals kom West Ham í forystu eftir góðan samleik við Said Benrahma um miðjan fyrri hálfleik. Staðan var 1-0 þegar landi hans Ayoze Perez, í liði Leicester, fékk að líta beint rautt spjald á 40. mínútu leiksins.
West Ham var því manni fleiri allan síðari hálfleikinn en Benrahma skoraði annað mark West Ham, eftir stoðsendingu frá Michail Antonio, á 56. mínútu. Belginn Youri Tielemans minnkaði muninn fyrir Leicester á 69. mínútu en nær komust gestirnir ekki.
Antonio skoraði þriðja markið á 80. mínútu og það fjórða á 84. mínútu til að tryggja West Ham 4-1 sigur.
West Ham er þá með sex stig, fullt hús stiga, eftir tvo leiki en Leicester náði ekki að fylgja sínum sigri í fyrstu umferð eftir og er liðið með þrjú stig.