Enski boltinn

Ensku fé­lögin hvergi hætt: Totten­ham og Chelsea stefna á að bæta við sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Adama gæti orðið leikmaður Tottenham á næstu dögum.
Adama gæti orðið leikmaður Tottenham á næstu dögum. Getty Images

Þó enska úrvalsdeildin sé farin af stað á nýjan leik og mörg lið virðast sátt með leikmannahópa sína þá eru önnur enn að leita að týnda hlekknum til að tryggja gott gengi í vetur.

Leikmannahópar knattspyrnuliða eru síbreytilegir og þá sérstaklega á Englandi þar sem gríðarlegir fjármunir eru til staða. Nú þegar tæp ein og hálf vika er til loka félagaskiptagluggans þar í landi er vert að fara yfir hvað gæti gerst á næstu dögum.

Háværasta umræðan er auðvitað í kringum enska landsliðsfyrirliðann Harry Kane. Hann er leikmaður Tottenham Hotspur en virðist ekki hafa mikinn áhuga á að spila fyrir félagið og horfir hýru auga til Englandsmeistara Manchester City. 

Kane er ekki eini framherjinn á markaðnum en Robert Lewandowski því yfir nýverið að hann vildi yfirgefa Þýskalandsmeistara Bayern. Það er þó talið að Lewandwoski verði áfram í herbúðum Bæjara út tímabilið. Einnig eru orðrómar á kreiki um að Cristiano Ronaldo vilji komast frá Juventus.

Evrópumeistarar Chelsea hafa loks losað ítalska bakvörðinn Davide Zappacosta en hann hefur verið seldur til Atalanta fyrir tíu milljónir evra. Þá virðist Thomas Thuchel ekki hafa mikla trú á franska miðverðinum Kurt Happy Zouma.

Sá er nú orðaður við West Ham United. Talið er að hann muni kosta í kringum 30 milljónir evra. Jules Koundé, landi Zouma, á að fylla skarð hans hjá Chelsea en þessi 22 ára gamli miðvörður ætti að smellpassa inn í þriggja manna vörn Chelsea-liðsins.

Þá ku Tottenham Hotspur vilja fá hinn öskufljóta Adama Traoré í sínar raðir. Viðræður eru í gangi en það verður að koma í ljós hvort Wolves er til í að selja. Nuno Espírito Santo þjálfaði auðvitað Traoré hjá Wolves áður en hann fór til Tottenham og veit því hvað leikmaðurinn getur.

Wolves hefur hins vegar ekki enn skorað mark í ensku úrvalsdeildinni og er ef til vill ekki tilbúið að láta leynivopn sitt af hendi svo glatt. Félagaskiptaglugginn lokar þann 2. september og má búast við að leikmannahópar stærstu liðanna muni breytast eitthvað fram að því.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.