Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Fylkir 2-0 | Garðbæingar unnu fallslaginn

Sverrir Már Smárason skrifar
Emil Atlason skoraði annað mark Stjörnunnar með góðu skoti fyrir utan vítateig.
Emil Atlason skoraði annað mark Stjörnunnar með góðu skoti fyrir utan vítateig. vísir/hulda margrét

Stjarnan steig stórt skref frá fallsvæðinu í Pepsi Max-deild karla í fótbolta með 2-0 heimasigri á Fylki í kvöld. Fylkismenn eru í bráðri hættu eftir að hafa leikið sex leiki í röð án sigurs.

Í kvöld komu Fylkismenn í heimsókn í Garðabæ og léku þar við Stjörnuna í Pepsi-Max deild karla. Leikurinn var sannkallaður fallbaráttuslagur þar sem bæði lið voru með 16 stig og rétt fyrir ofan fallsæti fyrir leik.

Leikurinn var varla byrjaður þegar fyrsta færið leit dagsins ljós. Óli Valur átti þá góða fyrirgjöf á Emil Atlason sem reyndi skallann en Ólafur, markvörður Fylkis, varði frá honum. Það var spilað á háum hraða til að byrja með en liðunum gekk illa að skapa sér marktækifæri. Líklega vegna mikilvægi leiksins og því hvorugt liðið vildi fá á sig fyrsta markið.

Eftir 13.mínútna leik kom Emil Atlason boltanum yfir línuna með skalla eftir hornspyrnu frá Hilmari Árna en Ívar Orri, dómari leiksins, dæmdi hann brotlegan áður en hann skallaði. Tveimur mínútum síðar reyndi Daði Ólafsson, leikmaður Fylkis, skot að marki Stjörnunnar. Brynjar Gauti, varnarmaður Stjörnunnar, varð fyrir skotinu og það small í höfði hans. Brynjar þurfti aðstoð en hélt áfram í korter í viðbót. Þá bað hann um skiptingu og á endanum var kallað til sjúkrabíls fyrir hann. Hann fékk heilahristing og sendum við á hann batakveðjur.

Við þessa skiptingu riðlaðist aðeins leikur Stjörnunnar og Fylkismenn komust meira inn í leikinn. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Stjörnumenn.

Síðari hálfleikur var lítil skemmtun til að byrja með en það átti eftir að breytast. Fylkismenn komu mun grimmari út úr hálfleiknum en áfram gekk þeim illa að búa til ákjósanleg marktækifæri. Stjörnumenn voru fljótir að jafna við baráttuna og hraðan í Fylkisliðinu og þar með jafnaðist leikurinn. Í kringum 80.mínútu áttu þeir Emil Atlason og Óli Valur, leikmenn Stjörnunnar, sitthvora marktilraunina með stuttu millibili sem báðum vantaði aðeins nokkra sentimetra uppá svo að þær enduðu í netinu. Óli Valur lék á Ragnar Sigurðsson og reyndi skot sem sleikti fjær stöngina og um 30 sekúndum seinna átti Emil skot á lofti sem small í þverslánni.

Fylkismenn settu mikla pressu á vörn Stjörnunnar í lokin og þar með opnaðist þeirra eigin vörn. Þeir bættu við forystuna á 84.mínútu þegar Eggert Aron fékk boltann úti á kanti, gerði vel í að koma sér inn á miðjan völl og renndi boltanum á Emil Atlason sem stóð rétt utan teigs. Emil lagði boltann fyrir sig og hamraði honum í netið, óverjandi fyrir Ólaf í marki Fylkis.

Það sem eftir lifði leiks reyndu Fylkismenn að sækja mark en sem fyrr þá gekk það ekki. Stjörnumenn héldu markinu hreinu og unnu þar með öflugan og þvílíkt mikilvægan 2-0 sigur. Þeir bæta við sig þremur stigum í fallbaráttunni, skilja Fylkir eftir með 16 og slíta sig aðeins frá ÍA og HK á botninum í bili.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn byrjuðu mun betur og voru skynsamir og öflugir í sínum aðgerðum allan leikinn í dag. Þeir sköpuðu færin og skoruðu mörkin. Vörn Stjörnunnar var mjög öflug í dag og gáfu þeir Fylkisliðinu lítið andrými.

Hverjir stóðu upp úr?

Ég ætla að nefna nokkra Stjörnumenn. Björn Berg Bryde skoraði fyrsta markið og var eins og klettur í vörn Stjörnunnar. Halldór Orri spilaði djúpur á miðjunni og var virkilega öflugur, stoppaði margar sóknir og dreifði spili vel. Emil Atlason var mjög góður frammi, lét vörn Fylkis hafa fyrir sér og skoraði magnað mark. Að lokum nefni ég Eggert Aron sem breytti leiknum eftir að hafa komið inná, óhræddur og virkilega góður með boltann. Eggert lagði upp seinna markið.

Hvað hefði mátt betur fara?

Fylkismenn voru lengi í gang og réðu ekki við Stjörnumenn framan af. Það gekk illa hjá Fylki að opna Stjörnuna og skapa færi.

Hvað gerist næst?

Fylkismenn eru áfram með 16 stig í 10.sæti deildarinnar. Þeir spila næst á heimavelli gegn Breiðablik 29.ágúst.

Stjarnan fer með 19 stig upp í 8.sæti. Þeir spila svo við Íslandsmeistara Vals á Origo-vellinum sömuleiðis 29.ágúst.

Ólafur Stígsson: Spilkaflarnir fínir en okkur vantar alltaf þessi mörk sem við erum að bíða eftir

Ólafur Ingi Stígsson var ekki ánægður með úrslit kvöldsins.VÍSIR/VILHELM

Ólafur Stígsson, annar af þjálfurum Fylkis, var að vonum svekktur með úrslitin.

„Ég er auðvitað bara mjög vonsvikinn sko, mér fannst við vera betri aðilinn hérna í dag úti á velli en okkur gekk erfiðlega að skapa almennilega færi. Fyrir utan fyrsta korterið voru þeir aðeins sterkari en heilt yfir fannst mér við betri aðilinn en það gefur okkur ekki mikið í dag,“ sagði Ólafur.

Fylkismenn sköpuðu fá færi í leiknum þrátt fyrir að vera mikið með boltann á miðjum vellinum.

„Við erum að spila vel úti á vellinum, komum okkur í álitlegar stöður en það vantar aðeins uppá til að fá alvöru dauðafæri,“ sagði Ólafur um færasköpun sinna manna.

Fylkismenn eru sem fyrr segir með 16 stig í 10.sæti deildarinnar. Ólafur segir stöðuna vera leiðinlega og að liðið þurfi að skora fleiri mörk.

„Auðvitað er þetta ekki skemmtileg staða til að vera í en við erum ennþá allavega ekki í fallsæti. Við erum ennþá í bílstjórasætinu með þetta en eigum erfiða leiki eftir og við þurfum bara að gera eitthvað til að fara að skora mörk. Spilkaflarnir fínir en okkur vantar alltaf þessi mörk sem við erum að bíða eftir,“ sagði Ólafur um framhaldið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira