Erlent

Lengsti vegur Grænlands kominn í sextíu kílómetra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegna fjárskorts var ákveðið að byrja á mjóum malarslóða fyrir torfærutæki.
Vegna fjárskorts var ákveðið að byrja á mjóum malarslóða fyrir torfærutæki. Sveitarfélagið Qeqqata

Mynd er farin að koma á nýja veginn milli Kangerlussuaq og Sisimiut sem ætlað er að verða lengsti þjóðvegur Grænlands. Búið er að leggja um það bil 60 kílómetra eða yfir þriðjung af 170 kílómetrum. Framkvæmdir halda áfram til loka september en þá verður gert hlé yfir veturinn.

Í grænlenska miðlinum Sermitsiaq eru birtar myndir af veginum og vitnað í fréttatilkynningu sveitarfélagsins Qeqqata. Þar segist bæjarstjórinn, Malik Berthelsen, hafa nýtt hluta af sumarleyfinu til að ganga eftir nýja veginum. Lýsir hún ánægju sinni með framgang verksins og hversu auðvelt sé að ganga hann en einnig megi hjóla hann.

Bæjarstjórinn segir veginn liggja um hrífandi náttúru.Qeqqata Kommunia

Þetta verður fyrsti vegur landsins sem tengir saman tvo þéttbýlisstaði. Bærinn Sisimiut er sá næstfjölmennasti á Grænlandi, með um 5.600 íbúa, og í Kangerlussuaq, sem áður hét Syðri-Straumfjörður, er aðalflugvöllur landsins en þar búa um 500 manns. Það var síðla árs 2019 sem grænlenska þingið samþykkti fjárveitingu til verksins en þá fjallaði Stöð 2 um vegagerðina:

Raunar er nær að tala um vegslóða fremur en venjulegan bílveg. Vegna takmarkaðra fjármuna var ákveðið að leggja slóða í ætt við íslenska hálendisvegi sem fyrst og fremst yrði ætlaður fjórhjólum en einnig breyttum jeppum.

Grænlendingar hófu samstarf við íslenskt fyrirtæki um að smíða rútujeppa fyrir veginn en sagt var frá jeppanum í frétt Stöðvar 2 í fyrravor:

Upphaflega var gert ráð fyrir að fyrstu tuttugu kílómetrar vegarins yrðu góður malarvegur sem venjulegar rútur og bílar gætu ekið. En sveitarfélagið segir að mikil úrkoma og sífreri hafi reynst erfið og því hafi verið ákveðið að leggja þennan fyrsta kafla einnig sem torfæruslóð en vegurinn liggur allur norðan heimskautsbaugs.

Bæjarstjórinn segir veginn þræða hrífandi náttúru og nú þegar hafi skapast tækifæri til að nýta hann í þágu ferðaþjónustu og útivistar. Markmiðið sé að í framtíðinni verði hann byggður upp sem hefðbundinn bílvegur.


Tengdar fréttir

Rútujeppi úr áli vísir að íslenskri bílaframleiðslu

Íslenskt fyrirtæki hefur samið við Grænlendinga um að sérsmíða umhverfisvæna bíla til að nota á fyrsta þjóðvegi Grænlands. Þetta yrði fyrsti raðsmíðaði íslenski bíllinn og byggður á áratuga reynslu Íslendinga af jeppaferðamennsku á hálendinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×