Greenwood bjargaði stigi fyrir United

Valur Páll Eiríksson skrifar
Greenwood er kominn með tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum United.
Greenwood er kominn með tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum United. James Williamson - AMA/Getty Images

Southampton og Manchester United gerðu 1-1 jafntefli er þau mættust í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á St. Mary's á suðurströnd Englands í dag. Mark Masons Greenwood bjargaði stigi fyrir United.

United vann 5-1 stórsigur á Leeds United í fyrsta leik þar sem Bruno Fernandes skoraði þrennu og félagi hans Paul Pogba fór mikinn er hann lagði upp fjögur mörk.

Flestir bjuggust því eflaust við að United myndi eiga í litlum vandræðum með Southampton sem hefur misst bæði Danny Ings og Jannik Vestergaard í sumar og tapaði 3-1 fyrir Everton í fyrstu umferð.

Southampton mættu hins vegar ákveðnir til leiks og ætluðu ekki að leyfa United að vaða yfir sig á fyrsta heimaleik þeirra á St. Mary’s fyrir fullum velli í rúmt ár. Heimamenn náðu forystu þegar skoski framherjinn Che Adams átti skot sem fór af miðjumanninum Fred og inn. Markið skráðist sem sjálfsmark á Fred.

Southampton leiddi 1-0 í hálfleik en eftir aðeins tíu mínútna leik í síðari hálfleik jöfnuðu United-menn. Paul Pogba átti þá góðan sprett inn á teig, þar sem hann átti samleik við Bruno Fernandes áður en hann kom boltanum á Mason Greenwood sem afgreiddi boltann í netið. Greenwood skorar annan leikinn í röð og Pogba kominn með fimm stoðsendingar í tveimur leikjum.

Adam Armstrong fékk algjört dauðafæri til að koma Southampton í forystu á ný stundarfjórðungi fyrir leikslok en skot hans með vinstri fæti af stuttu færi var of nálægt David De Gea sem varði boltann aftur fyrir.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Manchester United er þá með fjögur stig í deildinni eftir tvo leiki en Southampton fær sitt fyrsta stig með úrslitum dagsins.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.