Erlent

Leiðtogar Talibana koma úr felum

Heimir Már Pétursson og Árni Sæberg skrifa
Zabihullah Mujahid hefur verið talsmaður Talibana í tæpa tvo áratugi.
Zabihullah Mujahid hefur verið talsmaður Talibana í tæpa tvo áratugi. MARCUS YAM/Getty

Leiðtogar Talibana sem undanfarna áratugi hafa verið í felum og sjaldan veitt viðtöl nema með mikilli leynd, sýna sig nú hver á fætur öðrum opinberlega í Kabúl.

Talibanar héldu sinn fyrsta opinbera fréttamannafund í Kabúl í gær. Fundinum stýrði Zabihullah Mujahid sem hefur verið talsmaður Talibana í tæpa tvo áratugi en kom fyrst fram opinberlega í gær. 

Þar var tekið fram að konur mættu vinna en ekki var farið nánar út í skilyrði fyrir því. En í gær voru konur hvattar til þátttöku í nýrri ríkisstjórn landsins. 

Reuters fréttastofan hefur eftir háttsettum Talibana að liðsmönnum hreyfingarinnar hafi verið fyrirskipað að sýna ekki fagnaðarlæti eftir valdatökuna. 

BBC fréttastofan segir að merki séu um að lífið sé smátt og smátt að færast í eðlilegt horf í höfuðborginni. Fleiri verslanir hafi til að mynda opnað í morgun. 

Bretar hafa heitið því að taka á móti tuttugu þúsund afgönskum flóttamönnum og í gær tóku Ástralir á móti tuttugu og sex. 

Í Fréttablaðinu í dag segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra að hann hafi kallað eftir tillögum frá flóttamannanefnd um hvernig taka megi á móti fólki á flótta frá Afganistan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×