Erlent

Fundu líkams­leifar í hjóla­hólfi vélar sem flaug frá Kabúl

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
C-17 herflutningavélar á vegum bandaríska flughersins hafa verið að flytja fólk frá flugvellinum í Kabúl síðustu daga.
C-17 herflutningavélar á vegum bandaríska flughersins hafa verið að flytja fólk frá flugvellinum í Kabúl síðustu daga. getty/john white

Rannsóknarnefnd á vegum bandaríska flughersins hefur ákveðið að hefja rannsókn á líkamsleifum sem fundust í hjólahólfi C-17 herflutningavélar, sem flaug af flugvellinum í Kabúl í gær.

Líkamsleifarnar fundust í hjólahólfinu eftir lendingu á flugvellinum í Katar. Vélin hefur nú verið kyrrsett á meðan öllum líkamsleifunum verður safnað saman og flugvélin skoðuð betur, samkvæmt frétt CNN.

Eins og greint var frá í gær hefur skapaðist mikil ringulreið á flugvellinum í Kabúl og hefur fjöldi Afgana reynt að flýja undan stjórn Talíbana með erlendum vélum sem hafa verið þar til að flytja borgara sína í burtu.

Um 640 Afgönum tókst að troða sér um borð í aðra C-17 herflutningavél á vegum Bandaríkjahers á sunnudagskvöld og tóku flugmenn vélarinnar þá ákvörðun að taka á loft frekar en að reyna að koma flóttamönnunum úr vélinni.

Myndband af vélinni að taka á loft sýndi þá hvernig einhverjir sem reyndu að hanga aftan á henni féllu til jarðar úr mikilli hæð rétt eftir flugtakið.

Fluttu þúsund manns úr landi í dag

Bandaríkjamenn fluttu fleiri en þúsund úr landi í Afganistan í dag. Þar af voru 330 bandarískir ríkisborgarar. 

Samtals hafa Bandaríkjamenn nú flutt fleiri en þrjú þúsund úr landi á síðustu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×