Íslenski boltinn

Barist um Norðurlandið og lífsnauðsynleg stig í beinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þór/KA stelpur sjást hér í leik á móti Breiðabliki í Kópavogi en þær eru enn að bíða eftir fyrsta heimasigri sínum í sumar.
Þór/KA stelpur sjást hér í leik á móti Breiðabliki í Kópavogi en þær eru enn að bíða eftir fyrsta heimasigri sínum í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Þór/KA hefur enn ekki unnið heimaleik í Pepsi Max deild kvenna í sumar og í kvöld er komið að baráttunni um Norðurlandið þegar Stólarnir koma í heimsókn í Þorpið.

Þór/KA er tveimur sætum og fjórum stigum á undan nágrönnum sínum í Tindastól en gestirnir frá Sauðárkróki gætu minnkað forskotið í eitt stig í kvöld og eiga síðan leik inni á Þór/KA liðið.

Þar sem Tindastóll situr í fallsæti þá er ljóst að það eru lífsnauðsynleg stig í boði fyrir bæði liðin.

Heimavöllurinn hefur oftast verið einn af styrkleikum Þór/KA liðsins en nú er liðið það eina í deildinni sem hefur ekki unnið heimaleik í sumar.

Leikur Þór/KA og Tindastóls hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Það var mikil dramatík í fyrri leik liðanna á Króknum. Murielle Tiernan kom Tindastól yfir í 1-0 á 21. mínútu og þannig var staðan í fimmtíu mínútur eða þar til að varamaðurinn Sandra Nabweteme jafnaði metin tveimur mínútum eftir að hún kom inn á völlinn.

Nabweteme var ekki hætt því hún skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótatíma og Þór/KA stelpur fóru heim með þrjú stig. Þór/KA hefur aðeins unnið einn sigur síðan og hann kom á móti botnliði Keflavíkur.

Tindastólsliðið hefur unnið fleiri leiki síðan þá en er samt neðar í töflunni. Hér skiptir máli að þrátt fyrir fáa sigurleiki þá hafa norðanstelpur aðeins tapað einum af síðustu átta leikjum sínum en sex þeirra hafa bara endað með jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×