Þór/KA er tveimur sætum og fjórum stigum á undan nágrönnum sínum í Tindastól en gestirnir frá Sauðárkróki gætu minnkað forskotið í eitt stig í kvöld og eiga síðan leik inni á Þór/KA liðið.
Þar sem Tindastóll situr í fallsæti þá er ljóst að það eru lífsnauðsynleg stig í boði fyrir bæði liðin.
Heimavöllurinn hefur oftast verið einn af styrkleikum Þór/KA liðsins en nú er liðið það eina í deildinni sem hefur ekki unnið heimaleik í sumar.
Leikur Þór/KA og Tindastóls hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Það var mikil dramatík í fyrri leik liðanna á Króknum. Murielle Tiernan kom Tindastól yfir í 1-0 á 21. mínútu og þannig var staðan í fimmtíu mínútur eða þar til að varamaðurinn Sandra Nabweteme jafnaði metin tveimur mínútum eftir að hún kom inn á völlinn.
Nabweteme var ekki hætt því hún skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótatíma og Þór/KA stelpur fóru heim með þrjú stig. Þór/KA hefur aðeins unnið einn sigur síðan og hann kom á móti botnliði Keflavíkur.
Tindastólsliðið hefur unnið fleiri leiki síðan þá en er samt neðar í töflunni. Hér skiptir máli að þrátt fyrir fáa sigurleiki þá hafa norðanstelpur aðeins tapað einum af síðustu átta leikjum sínum en sex þeirra hafa bara endað með jafntefli.