Erlent

Varði á­kvörðunina og skellti skuldinni á ráða­mennina sem flúðu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina nú í kvöld.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina nú í kvöld. AP/Evan Vucci

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, varði ákvörðun sína um að draga bandarískt herlið frá Afganistan er hann ávarpaði bandarísku þjóðina í kvöld. Hann segist standa við ákvörðunina en viðurkennir að Talibanar hafi náð völdum hraðar en gert hafði verið ráð fyrir. Það sé hins vegar ráðamönnum í Afganistan að kenna.

Talibanar hafa tekið yfir völdin í Afganistan tuttugu árum eftir að þeir voru hraktir á brott þegar Bandaríkjanna og bandamenn þeirra réðust inn í landið í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001. Frá því að herlið NATO og Bandaríkjanna var kallað heim fyrr á árinu hefur sókn þeirra Talibana verið afar hröð. Svo hröð að þeir tóku yfir höfuðborgina Kabúl í gær.

Biden og stjórn hans hefur mátt þola harða gagnrýni að undanförnu vegna ákvörðunarinnar um að draga herliðið til baka, ekki síst í ljósi þeirrar dökku framtíðar sem bíður kvenna og stúlkna í Afganistan undir stjórn Talibana. Biden hafði lítið tjáð sig um stöðu mála í Afganistan, þangað til í kvöld er hann ávarpaði bandarísku þjóðina.

„Ég stend staðfastlega á bak við ákvörðun mína, sagði Biden. Eftir tuttugu ár höfum við lært þá erfiðu lexíu að það var aldrei neinn góður tími til þess að draga herlið okkar til baka. Það er ástæðan fyrir því að við erum enn þarna,“ sagði Biden.

Sagði Biden að í raun hafi það aldrei verið markmiðið með innrásinni í Afganistan og veru alþjóðlegs herliðs þar að byggja upp afganska ríkið, heldur mun frekar að koma í veg fyrir hryðjuverk á borð við það sem framið var 11. september.

Sem fyrr segir hefur Biden mátt þola harða gagnrýni fyrir það hvernig staðið var að brotthvarfinu. Mikil ringulreið skapaðist í höfuðborginni Kabúl þegar Talibanar sóttu að henni. Flugvöllurinn í borginni fylltist meðal annars af örvæntingarfullum íbúum sem óttuðust líf sitt undir stjórn Talibana.

Skellti Biden skuldinni á hraðri yfirtöku Talibana yfir á stjórnvöld í Afganistan. Þau hafi gefist of fljótt upp en Asraf Gani, forseti landsins, flúði land þegar Talibanar nálguðust Kabúl.

„Sannleikurinn er sá að þetta gerðist hraðar en við gerðum ráð fyrir. Og hvað var það sem gerðist? Pólitískir leiðtogar Afganistan gáfust upp og flúðu land. Afganski herinn gafst upp, stundum án þess að reyna að berjast.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.