Erlent

Tali­banar hljómi eins og ó­trú­verðugur of­beldis­maki sem lofi bót og betrun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talibanar hafa aftur náð völdum í Afganistan, tuttugu árum eftir að þeir voru hraktir á brott.
Talibanar hafa aftur náð völdum í Afganistan, tuttugu árum eftir að þeir voru hraktir á brott. EPA/JALIL REZAYEE

Íslenskur sérfræðingur sem starfað hefur í Afganistan hefur ekki mikla trú á því að tangarhald Talibana á Afganistan verði mildara en fyrir um tveimur áratugum, líkt og talsmenn Talibana hafa ýjað að.

Talibanar hafa endanlega náð yfirráðum í Afganistan á nýjan leik eftir að hermenn á þeirra vegum tóku yfir höfuðborgina Kabúl. Mikil ringulreið hefur ríkt á alþjóðaflugvellinum í Kabúl eftir að Talibanar tóku völdin í Afganistan í gær. Þúsundir manna flykktust að flugvellinum í þeirri von að geta flúið land.

Friðrik Jónsson, núverandi formaður BHM starfaði í Afganistan fyrir Atlantshafsbandalagið og Sameinuðu þjóðirnar. Hann ræddi stöðuna í Afganistan í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Þróunin næstu daga verður væntanlega þannig að örvænting, ringulreið og kaos, sérstaklega á meðal afgönsku þjóðarinnar, heldur áfram,“ sagði Friðrik.

Líklegt væri að Talibanar myndu hleypa starfsmönnum alþjóðasamtaka og sendiráða úr landi, svo að þeir gætu klárað að mynda nýja stjórn. Þegar Talibanar voru við völd í Afganistan á árunum 1996-2001 var staða kvenna afar bágborin. Friðrik reiknar ekki með öðru en að það sama verði upp á teningnum nú.

„Hvað varðar stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan þá bíður þeirra ekkert gott. Talsmenn Talibana hafa haldið því fram að þeir ætli nú að vera skárri núna en síðast en það hljómar svona svolítið eins og ofbeldismaki úr sambandi sem lofar bót og betrun. Ég verð að játa því miður að ég hef ekki mikla trú á því að það verði neitt skárra en síðast þegar þeir verði við völd,“ sagði Friðrik.

Þannig að þú sérð fyrir þér ofbeldi og grimmd?

„Já, það eru vörumerki Talibana. Það er þannig sem þeir halda völdum. Þeir hafa alltaf rekið ógnarstjórn. Það er þannig sem þessi í raun fáliðaði miðað við fjölda stjórnarhersins hefur komist upp með það sem þeir hafa komist upp með.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.