Íslenski boltinn

Síðast skoraði Breiða­blik sjö en sá hlær best sem síðast hlær

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mist Edvardsdóttir og stöllur hennar hafa skellt í lás eftir afhroðið gegn Blikum í fyrri umferðinni.
Mist Edvardsdóttir og stöllur hennar hafa skellt í lás eftir afhroðið gegn Blikum í fyrri umferðinni. Vísir/Elín Björg

Íslandsmeistarar Breiðabliks taka á móti Val í Pepsi Max deild kvenna í kvöld. Breiðablik vann fyrri leik liðanna á Hlíðarenda 7-3 en Valur trónir nú á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forystu þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir.

Þegar liðin mættust í 5. umferð höfðu bæði lið óvænt tapað stigum í upphafi móts en leikurinn á Hlíðarenda kom öllum á óvart. Breiðablik vann stórsigur og það virtist svo gott sem staðfest að Íslandsmeistaratitilinn yrði áfram í Kópavogi.

Breiðablik tapaði hins vegar tveimur af næstu þremur leikjum og þó Valur hafi gert jafntefli við Þór/KA skömmu eftir afhroðið þá hefur liðið unnið alla hina átta leikina sem það hefur spilað síðan þá. Þjálfarateymi Vals virðist hafa tekið þá ákvörðun að þetta varnarleikinn en Valur hefur aðeins fengið á sig fimm mörk í leikjunum níu síðan Breiðablik skoraði sjö.

Þegar liðin ganga inn á Kópavogsvöll í kvöld er ljóst að heimakonur VERÐA að vinna leikinn til að eiga möguleika á að verja titilinn. Liðið hefur skorað langflest allra í deildinni en bæði Valur og Stjarnan hafa fengið á sig færri mörk. Máltækið segir að vörn vinni titla og Valskonur eru hársbreidd frá því að sanna það. Sigur í kvöld og titillinn er í augsýn. 

Þó Blikar hafi skorað sjö mörk í fyrri leik liðanna er ljóst að sá hlær best sem síðast hlær. Eins og staðan er í dag stefnir í að það verði Valur.

Leikur Breiðabliks og Vals á Kópavogsvelli hefst klukkan 19.15. Útsending Stöð 2 Sport hefst klukkan stundarfjórðung fyrr, klukkan 19.00.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×