Enski boltinn

Danski turninn ekki lengur dýr­lingur heldur refur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jannik Vestergaard í leik gegn Englandi á EM í sumar.
Jannik Vestergaard í leik gegn Englandi á EM í sumar. Visionhaus/Getty Images

Daninn Jannik Vestergaard hefur ákveðið að söðla um og færa sig um set í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur leikið með Southampton undanfarin ár en er nú á leið til Leicester City.

Vestergaard hefur leikið með Southampton frá 2018 en þar áður var hann í Þýskalandi. Hann er 1.99 metri á hæð og er engin smá smíð. Talið er að Leicester borgi 15 milljónir punda fyrir miðvörðinn knáa þó hvergi komi fram hversu langan samning hann skrifi undir.

Hinn 29 ára gamli Vestergaard stóð vaktina í vörn danska landsliðsins á Evrópumótinu í sumar og á alls að baki 28 A-landsleiki. Þá lék hann á sínum tíma einnig 28 leiki fyrir danska U-21 árs landsliðið.

Refirnir hafa reynt að festa kaup á Vestergaard síðan í janúar 2020 en ekki haft erindi sem erfiði. Eftir slæm meiðsli Wesley Fofana hefur Brendan Rodgers ákveðið að setja allt púður í að sækja danska varnarmanninn og loksins lét Southampton undan.

Vestergaard var mjög eftirsóttur í sumar og er talið að West Ham United, Wolves og Tottenham Hotspur hafi öll haft augastað á kappanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×