Ríkisstjórnin situr nú á árlegum sumarfundi sínum í Salthúsinu í Grindavík þar sem aðgerðir innanlands vegna Covid-19 eru meðal annars til umræðu. Á dagskrá er einnig að ræða við fulltrúa sveitarstjórna á svæðinu og stendur sá fundur yfir nú.
Morguninn hófst á ríkisstjórnarfundi en hann virðist hafa dregist eitthvað á langinn og fram í þann hluta dagskrárinnar þar sem gert var ráð fyrir hádegismat. Þurftu ráðherrar því að snæða hádegisverð á meðan fundurinn með fulltrúum sveitarstjórna hófst.
Ekki í góðum málum ef eldgosið skaðar helstu innviði
Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, er einn af þeim sem situr fundinn með ráðherrum. Hann segir að afleiðingar atvinnuleysis á svæðinu og þær ógnir sem stafi af eldgosinu í Fagradalsfjalli muni helst koma til umræðu.
„Við erum auðvitað að glíma við afleiðingar af þessum faraldri eins og flest aðrir landshlutar. Atvinnuleysi hér hefur verið mjög mikið og við munum auðvitað fá að ræða við þau hvaða möguleikar séu í stöðunni. Það er líka verið að horfa á eldgosið sem er hér fyrir utan gluggann hjá okkur og þá náttúruvá sem getur fylgt því,“ sagði Guðbrandur í viðtali við Sunnu Karen Sigþórsdóttir fréttamann í Grindavík í dag.
„HS Orka er hérna hinum megin við götuna má segja. Bláa lónið er þarna líka. Við erum með vatnsból ekkert langt í burtu. Ef að allir þessir innviðir verða fyrir skaða af eldgosi þá erum við ekki í góðum málum. Það þarf líka að horfa til þess. Suðurlandslínu II til þess að tryggja raforkuöryggi. Það er margt sem við getum rætt hvað þetta varðar.“
Býstu við löngum fundi?
„Við fáum tvo tíma held ég þannig að við ætlum að nýta þá vel“