Erlent

Stjórn­völd í Japan opinbera nöfn þeirra sem brjóta sóttvarnareglur

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikil aukning hefur verið í fjölda smitaðra í Japan síðustu vikur.
Mikil aukning hefur verið í fjölda smitaðra í Japan síðustu vikur. Ap/Kantaro Komiya

Japönsk stjórnvöld birtu á mánudag nöfn þriggja einstaklinga sem eru sakaðir um að hafa brotið gegn sóttkvíarskyldu við komuna til landsins. Samkvæmt gildandi reglum þurfa allir farþegar sem koma erlendis frá að sæta tveggja vikna sóttkví og nær það einnig til japanskra ríkisborgara.

Að sögn heilbrigðisráðuneytisins hefur fólkið forðast samskipti við yfirvöld með markvissum hætti eftir að það kom nýverið til Japan.

Þetta er í fyrsta skipti sem þarlend stjórnvöld birta nöfn einstaklinga sem sakað er um sóttvarnabrot. Talið er aðgerðin marki nýja stefnu heilbrigðisyfirvalda sem vonist til að opinber nafngreining og smánun komi til með að fæla fólk frá því að brjóta gegn sóttvarnareglum.

Fram kemur í frétt Reuters-fréttaveitunnar að nafnbirtingin hafi vakið mikla athygli netverja og mátti sjá vangaveltur um atvinnu og búsetu einstaklinganna á Twitter. Mikill vöxtur hefur verið í fjölda smitaðra í Japan síðustu vikur á sama tíma og Tókýó hefur verið undirlögð af Ólympíuleikunum.

Stjórnvöld biðja nú fólk í sóttkví um að notfæra sér smitrakningaapp og veita reglulegar upplýsingar um líðan sína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×