Erlent

Einni og hálfri milljón manna skipað að halda sig heima vegna nítján smitaðra

Samúel Karl Ólason skrifar
Skimun fyrir Covid-19 meðal íbúa í Wuah, þar sem nýja kórónuveiran greindist fyrst.
Skimun fyrir Covid-19 meðal íbúa í Wuah, þar sem nýja kórónuveiran greindist fyrst. AP/Chinatopix

Íbúum borgarinnar Zhangjiajie í Kína hefur verið meinað að yfirgefa heimili sín vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar. Um 1,5 milljón manna búa í borginni sem er einni vinsæll ferðamannastaður.

Hvorki íbúar né ferðamenn fá að yfirgefa Zhangjiajie.

Þá hefur Kommúnistaflokkur Kína refsað ráðamönnum í borginni fyrir að hafa ekki staðið sig nægilega vel í sóttvörnum. Það er þrátt fyrir að einungis nítján tilfelli hafi greinst þar á undanfarinni viku, samkvæmt opinberum tölum.

AP fréttaveitan hefur þó eftir þarlendum fjölmiðlum að vitað sé að fólk sem hafi smitast í Zhangjiajie hafi farið til minnst fimm annarra héraða.

Fréttaveitan segir yfirvöld í Kína hafa tilkynnt að 71 hefði greinst smitaður af Covid-19 í gær. Þar af væru nítján sem hefðu smitast innanlands.

Í borginni Nanjing hafa alls 220 greinst smitaðir að undanförnu, samkvæmt frétt Global Times, sem er í eigu kínverska ríkisins. Útbreiðslan þar hefur verið rakin til alþjóðaflugvallar borgarinnar.

Búið er að gefa rúmlega 1,71 milljarð bóluefnaskammta í Kína, þar sem um 1,4 milljarður mann býr. Samkvæmt opinberum yfirlýsingum er búið að fullbólusetja um 40 prósent þjóðarinnar.

Hafa gripið til ferðatakmarkana

Í heildina, frá því faraldurinn hófst í Kína í lok árs 2019 hafa yfirvöld í Kína skrásett 4.636 dauðsföll og 93.289 smitaða. Flestir þeirra sem smitast hafa í Kína smituðust í upphaflega faraldrinum í Wuhan. Delta-afbrigðið, sem greindist fyrst í Indlandi, hefur einnig greinst í Wuhan og hefur verið gripið til umfangsmikillar skimunar þar.

Í frétt CNN segir að útbreiðsla smitaðra í Kína hafi valdið áhyggjum ráðamanna í Kína. Búið er að grípa til umfangsmikilla ferðatakmarkana innanlands og er sömuleiðis verið að taka landamærin hörðum tökum.

Ekki á að hleypa ferðamönnum inn í landið nema þeir þurfi þess nauðsynlega og er verið að draga úr útgáfu vegabréfa fyrir Kínverja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×