Íslenski boltinn

Rúnar með sex sigra og aðeins eitt tap sem þjálfari KR á Hlíðarenda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var tolleraður á Hlíðarenda eftir að Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn þar haustið 2019.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var tolleraður á Hlíðarenda eftir að Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn þar haustið 2019. Vísir/Bára

Valur hefur hvorki skorað né fengið stig á móti KR á heimavelli í þrjú ár í leikjum liðanna í Pepsi Max deildinni og þjálfari Vesturbæjarliðsins elskar örugglega að mæta á heimavöll erkifjendanna.

Valur tekur á móti KR á Origo vellinum á Hlíðarenda í stórleik fimmtándu umferðar Pepsi Max deildar karla. Gestirnir hafa fagnað þar undanfarin ár.

KR hefur unnið leiki sína á Hlíðarenda undanfarin tvö tímabil og það án þess að fá á sig mark.

Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmarkið í júní 2020 og Pálmi Rafn Pálmason skoraði sigurmarkið í september 2019. Báðir leikirnir enduðu með 1-0 sigri KR-liðsins.

Valsmenn skoruðu síðast á heimavelli á móti KR í 2-1 sigri í aprílmánuði 2018 þegar liðið lék undir stjórn Ólafs Jóhannessonar. Rúnar Kristinsson var þá nýtekinn aftur við KR-liðinu.

Þetta var um leið síðasti sigur Vals á móti KR á Hlíðarenda í Pepsi Max deildinni.

Dion Jeremy Acoff og Tobias Bendix Thomsen skoruðu mörk Valsmanna í leiknum en þeir eru löngu horfnir á braut.

Það var mikil dramatík í leiknum því Pálmi Rafn Pálmason jafnaði metin á þriðju mínútu í uppbótartíma en Tobias Bendix Thomsen skoraði sigurmark Vals mínútu síðar.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, getur ekki kvartað mikið yfir stigasöfnun KR liðsins á Hlíðarenda undir hans stjórn.

Rúnar hefur stýrt KR liðinu í átta deildarleikjum á móti Val á Hlíðarenda og KR-ingar hafa unnið sex þessara leikja og skorað í þeim fjórtán mörk gegn aðeins fimm. Valsmenn hafa aðeins unnið þennan eina leik þegar Rúnar var nýtekinn aftur við Vesturbæjarliðinu.

Leikur Vals og KR hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Pepsi Max Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 18.00 og eftir leikinn verður Pepsi Max Stúkan á sömu stöð.

 • Deildarleikir KR á Hlíðarenda undir stjórn Rúnars Kristinssonar:
 • 2020: KR vann 1-0
 • 2019: KR vann 1-0
 • 2018: Valur vann 2-1
 • 2014: KR vann 4-1
 • 2013: KR vann 2-1
 • 2012: KR vann 1-0
 • 2011: Markalaust jafntefli
 • 2010: KR vann 4-1
 • --
 • Samtals:
 • 8 leikir
 • 6 KR sigrar
 • 1 jafntefli
 • 1 Valssigur
 • Markatala: KR +9 (14-5)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.