Enski boltinn

Telur Liverpool þurfa að bæta við sig leikmönnum til að keppa um titilinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jamie Carragher
Jamie Carragher vísir/getty

Liverpool goðsögnin Jamie Carragher kveðst ekki sannfærður um að núverandi leikmannahópur Liverpool sé nógu sterkur til að vinna ensku úrvalsdeildina sem hefst um miðjan mánuðinn.

Liverpool hefur aðeins keypt einn leikmann í sumar en það er franski varnarmaðurinn Ibrahima Konate sem kom frá RB Leipzig.

Ekki er útlit fyrir að Jurgen Klopp ætli sér að vera stórtækur á leikmannamarkaðnum það sem eftir lifir sumars og telur Carragher að það gæti komið í veg fyrir að liðið keppi við ríkjandi meistara Man City um titilinn.

„Það þarf ekki marga leikmenn en ég tel liðið þurfa að fá meiri gæði í hópinn,“ segir Carragher.

„Ef við fáum ekki fleiri leikmenn gæti verið erfitt að velta Man City af stalli sínum. Við skulum ekki gleyma Chelsea sem eru Evrópumeistarar og Man Utd sem hefur gert vel á markaðnum með því að ná í Varane og Sancho.“

„Ég myndi vilja sjá leikmenn sem færir liðinu mörk, sama hvort það sé af miðjunni eða einhver í sóknarlínuna,“ segir Carragher.

Liverpool átti ekki góða titilvörn á síðustu leiktíð en hafnaði þó í 3.sæti deildarinnar, á eftir Manchester liðunum tveimur.

„Ég er pínu smeykur eftir síðasta tímabil hjá Liverpool, hvort það sé nóg af mörkum í liðinu til að fara og vinna titilinn. Ég geri kröfu á að Mane muni eiga gott tímabil. Hann var ekki upp á sitt besta í fyrra en hefur litið mjög vel út á undirbúningstímabilinu. Vonandi getur hann verið maðurinn sem færir liðinu þessi mörk sem ég tel þurfa,“ segir Carragher.

Liverpool hefur leik í ensku úrvalsdeildinni þann 14.ágúst næstkomandi þegar liðið heimsækir nýliða Norwich.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.