Íslenski boltinn

Fjölnir vann mikilvægan sigur gegn tíu Grindvíkingum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fjölnismenn fögnuðu sigri í kvöld eftir að hafa lent undir.
Fjölnismenn fögnuðu sigri í kvöld eftir að hafa lent undir.

Fjölnir vann 2-1 sigur á Grindavík í fyrri leik kvöldsins í Lengjudeild karla í fótbolta. Leikurinn var báðum liðum mikilvægur í baráttunni um sæti á meðal þeirra bestu að ári.

Bæði lið hafa verið í hópi liða sem berjast um annað sæti deildarinnar, en Fram hefur stungið aðra af á toppnum. Þau höfðu bæði 20 stig fyrir leik kvöldsins, sex á eftir ÍBV í öðru sætinu og tveimur frá Kórdrengjum í því þriðja.

Grindavík varð fyrir áfalli um miðjan fyrri hálfleik þegar Marinó Axel Helgason reif niður leikmann Fjölnis sem var við það sleppa í gegn og þar hann kom í veg fyrir upplagt marktækifæri gat Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, fátt annað gert að að vísa honum af velli með rautt spjald.

Markalaust var í hléi en tíu Grindvíkingar komust óvænt yfir á 62. mínútu þegar Sigurður Bjartur Hallsson skoraði úr vítaspyrnu, eftir að brotið hafði verið á Jósef Kristni Jósefssyni innan teigs Fjölnis.

Sú forysta entist þó aðeins í sjö mínútur. Andri Freyr Jónasson jafnaði þá fyrir Fjölnismenn og aðeins þremur mínútum síðar, á 72. mínútu, kom Michael Bakare þeim í forystu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og dugði þetta því Fjölni til 2-1 sigurs á Grindavík í kvöld.

Með því halda þeir vonum sínum um að komast upp um deild á lífi en Fjölnir er með 23 stig eftir 14 leiki í 3. sæti deildarinnar, þremur stigum frá ÍBV sem hefur leikið einum leik færra. Kórdrengir eru með 22 stig í fjórða sæti en hafa aðeins spilað tólf leiki. Grindavík er þá með 20 stig í fimmta sæti og er von þeirra orðin býsna veik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×