Enski boltinn

Man. Utd. staðfestir komu Sanchos

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jadon Sancho í búningi Manchester United.
Jadon Sancho í búningi Manchester United. getty/Ash Donelon

Manchester United hefur loksins staðfest komu Jadons Sancho frá Borussia Dortmund.

Sancho skrifaði undir fimm ára samning við United með möguleika á árs framlengingu.

Enski landsliðsmaðurinn hefur verið orðaður við United í marga mánuði en félagið hefur loks gengið frá kaupunum á honum.

Sancho er uppalinn hjá Manchester City en fór ungur til Dortmund þar sem hann sló í gegn. Á fjórum tímabilum hjá Dortmund skoraði hann fimmtíu mörk og gaf 64 stoðsendingar.

„Ég verð ávallt þakklátur Dortmund fyrir að gefa mér tækifæri en ég vissi alltaf að ég myndi snúa aftur til Englands einn daginn. Tækifærið að fara til United er draumur sem hefur ræst og ég get ekki beðið eftir að spila í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Sancho.

United endaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili auk þess sem liðið komst í úrslit Evrópudeildarinnar þar sem það tapaði fyrir Villarreal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×