Enski boltinn

Gæti orðið dýrasti leik­maður Man City frá upp­hafi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kane fagnar einu marka sinna á EM. Hann gæti grætt ágætlega á því að ganga til liðs við Manchester City.
Kane fagnar einu marka sinna á EM. Hann gæti grætt ágætlega á því að ganga til liðs við Manchester City. Marc Atkins/Getty

Framtíð enska landsliðsframherjans Harry Kane virðist enn í lausu lofti. Spurning hversu lengi Tottenham Hotspur geti staðist gylliboð Manchester City en talið er að Englandsmeistararnir gætu boðið allt að 160 milljónir punda til að fá Kane í sínar raðir.

Á vef Sky Sports er hægt að fylgjast með öllum þeim orðrómum sem eru í gangi á Englandi varðandi félagaskipti leikmanna. Enginn orðrómur er hærri en sá að Kane ætli að skipta Lundúnum út fyrir Manchester.

Pep Guardiola, þjálfari Man City, hefur þegar sagt að félagið hafi ekki efni á að kaupa leikmenn á þær upphæðir sem nefndar eru.

Pep gæti haft eitthvað til síns máls en upphæðin sem nú er nefnd er 160 milljónir punda. Yrði Kane þá dýrasti leikmaður Manchester City frá upphafi. Ef kaupin ganga eftir yrði Kane næstdýrasti leikmaður sögunnar á eftir Neymar.

Ekki nóg með það að City eigi að vera klárt með 160 milljónir punda til að kaupa leikmanninn þá fengi Kane 400 þúsund pund á viku fyrir að spila með Manchester City. Sky Sports telur að Pep sé tilbúinn að fórna Bernardo Silva til að búa til pláss fyrir Kane.

Þá er vitað að Pep er mikill aðdáandi Jack Grealish hjá Aston Villa en hvort City geti keypt Kane á 160 milljónir punda ásamt því að kaupa Grealish verður einfaldlega að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×