Erlent

Dauðsföll á Indlandi séu fleiri en opinberar tölur sýna

Árni Sæberg skrifar
Fólk hefur verið feimið við sýnatökur á Indlandi í faraldrinum.
Fólk hefur verið feimið við sýnatökur á Indlandi í faraldrinum. Satish Bate/Getty

Ný rannsókn bendir til þess að dauðsföll af völdum Covid 19 á Indlandi hafi verið gróflega vanáætluð. Í rannsókninni, sem gerð er af bandarísku stofnuninni Center for Global Development er því haldið fram að umframdauðsföll á Indlandi frá upphafi faraldurs og fram í miðjan júní á þessu ári séu fjórar milljónir.

Með umframdauðsföllum er átt við fjölda þeirra sem létu lífið umfram það sem gerist í meðal ári. Opinberar tölur stjórnvalda á Indlandi halda því hinsvegar fram að þar hafi aðeins 414 þúsund dáið af völdum veirunnar. 

Skýrsluhöfundar segja ekki hægt að fullyrða um að heildartala þeirra sem dóu úr Covid sé fjórar milljónir, en umframdauðsföllin bendi ótvírætt til þess að tölur stjórnvalda séu gróflega vanáætlaðar.

Dánartíðni er ekki óvenjulega lág í raun

Samkvæmt opinberum tölum stjórnvalda í Indlandi er dánartíðni af völdum Covid-19 á Indlandi með þeim lægstu í heiminum. Arvind Subramanian, einn höfunda rannsóknarinnar, segir í samtali við The Guardian að rannsóknin leiði í ljós að Indland sé ekki með óvenjulega lága dánartíðni í raun og veru.

Hann segir jafnframt að mikilvægt sé að komast að nákvæmri niðurstöðu um það hversu margir hafi látist í faraldrinum. „Hvernig getum við haft grunnþekkingu á áhrifum Covid án þess að vita hversu margir létust og hvar?“ veltir Subramanian fyrir sér.

Smitskömm er að einhverju leiti að kenna

Fréttaritari The Guardian á Indlandi segir smitskömm hafi komið í veg fyrir að margir hafi farið í sýnatöku vegna Covid-19 og því hafi mörg dauðsföll ekki verið skráð sem skyldi.

Hún segir þó einnig að eftir þrýsting frá almenningi hafi nokkur héröð á Indlandi uppfært tölur yfir dauðsföll sem hafi snarhækkað opinbera tölu yfir dauðsföll.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×