Erlent

Fangelsi og jafn­vel dauða­dómur fyrir vörslu er­lends af­þreyingar­efnis

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er lítið gefinn fyrir menningarlega fjölbreytni.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er lítið gefinn fyrir menningarlega fjölbreytni. Pyeongyang Press Corps/Pool/Getty

Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa varað ungt fólk í landinu við því að nota slanguryrði jafnaldra sinna frá Suður-Kóreu og hvetja ungdóminn raunar til að halda sig við „staðlað norðurkóreskt mál.“

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Þar kemur einnig fram að ungt fólk í landinu sé varað við því tileinka sér tískustrauma, hárgreiðslur og tónlist frá nágrönnunum í suðri.

Viðleitni ríkisfjölmiðla til að skerpa á þessari stefnu stjórnvalda stafar af nýrri löggjöf sem ætlað er að má út hvers kyns vísi að suðurkóreskum menningaráhrifum í landinu. Brot á lögunum getur varðað þungum refsingum, fangelsisdómi eða jafnvel dauðarefsingu.

Þannig hafa ríkisfjölmiðlar lagt áherslu á að norðurkóreskt mál, sem þeir kenna við höfuðborgina Pjongjang, sé æðra öðrum mállýskum. Því sé ungdóminum hollast að tileinka sér það og nota það rétt.

Segir popptónlist djöfullegt krabbamein

Ljóst er að Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, stendur stuggur af menningaráhrifum úr suðri og lítur á þau sem ógn við völd sín. Nýlega var haft eftir honum að K-Pop, kóresk popptónlist sem á uppruna sinn í Suður-Kóreu, væri „djöfullegt krabbamein,“ sem væri til þess fallið að spilla ungu fólkinu í Norður-Kóreu.

Samkvæmt nýju lögunum getur hver sem er tekinn með mikið magn af afþreyingarefni frá Bandaríkjunum, Japan eða Suður-Kóreu átt yfir höfði sér dauðarefsingu. Þá er lögð 15 ára fangelsisrefsing við því að neyta slíkrar miðlunar.

Þrátt fyrir þetta virðast utanaðkomandi menningaráhrif halda áfram að komast inn fyrir landamæri Norður-Kóreu, meðal annars með smyglarahópum.

BBC hefur eftir norðurkóreumönnum sem flúð hafa til suðurs að afþreyingarefni frá Suður-Kóreu hafi spilað inn í ákvörðun þeirra um að flýja land.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.