Umfjöllun og viðtöl: FH - Fylkir 1-0 | Fyrsti sigur FH í deildinni síðan 17. maí

Andri Már Eggertsson skrifar
FH unnu sinn fyrsta sigur í deildinni síðan 17. maí 
FH unnu sinn fyrsta sigur í deildinni síðan 17. maí  Vísir/Hulda Margrét

FH unnu sinn fyrsta sigur síðan 17. maí.

FH ingar fengu hvert dauðafærið á fætur öðru í fyrri hálfleik sem Aron Snær Friðriksson varði.

Steven Lennon gerði fyrsta mark leiksins eftir tæplega 78 mínútna leik og mátti sjá að miklu fargi hafi verið létt af leikmönnum FH eftir að hafa farið illa með ansi mörg dauðafæri.

Upphafs mínútur leiksins voru í rólegri kantinum. Steven Lennon skoraði tvö mörk í síðasta leik en fór ansi illa með tvö dauðafæri á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.

Fyrst fengu FH skyndisókn þar sem Jónatan Ingi gerði vel í að keyra upp völlinn renndi síðan boltanum á Steven Lennon sem var kominn í einn á einn stöðu gegn Aroni Snæ sem varði skot hans meistaralega.

Aftur komst Lennon í gegn eftir góða sending Jónatans Inga en nú reyndi hann að fara fram hjá Aroni sem lét ekki gabba sig og gerði vel í að ná boltanum.

Það kom síðan í hlut Jónatans Inga að klikka á þriðja dauðafæri FH þar sem Steven Lennon vippaði boltanum á hann en hann hitti boltann afar illa og fram hjá markinu fór knötturinn.

Aron Snær Friðriksson hélt áfram að verja eins og berserkur frá FH ingunum. Björn Daníel var í góðri stöðu vinstra megin í teignum þar sem Aron varði stórkostlega með löppunum.

Skömmu síðar varði hann skot Harðar Inga rétt fyrir utan teig. Með hreinum ólíkindum að FH voru ekki búnir að skora hið minnsta eitt mark í fyrri hálfleik og máttu varnarmenn Fylkis þakka Aroni Snæ fyrir það því þeir voru hreinlega út í móa í fyrri hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks hélt Aron Snær áfram að verja dauðafæri frá FH. Í þetta sinn var það flugskalli frá Jónatan Inga af stuttu færi sem Aron varði.

Það dró til tíðinda eftir tæplega 78 mínútna leik þegar Jónatan Ingi pikkaði boltanum út í teiginn á Steven Lennon sem braut ísinn fyrir FH.

FH-ingum virtist vera létt eftir að hafa brotið ísinn og gerðu vel í að halda leikinn út án þess gefa á sig nein dauðafæri eftir mark Lennon. Niðurstaðan því 1-0 sigur FH. 

Af hverju vann FH 

Heilt yfir var FH talsvert betra liðið á vellinum. Þeir sköpuðu sér endalaust af frábærum marktækifærum og var algjört lágmark að þeir kæmu inn einu marki sem skilaði þeim á endanum sigri. 

Hverjir stóðu upp úr?

Þetta var leikur markmannanna í kvöld. Gunnar Nielsen var maður leiksins í kvöld. Hann varði vel í marki FH og átti lykil markvörslu þar sem hann varði dauðafæri frá Arnóri Borg rétt fyrir sigurmark FH.

Aron Snær Friðriksson var langbesti leikmaður Fylkis í kvöld. Hann varði eins og berserkur í fyrri hálfleik þar sem hann tók hvert dauðafæri á fætur öðru.

Hvað gekk illa?

Varnarmenn Fylkis voru út í móa í fyrri hálfleik. FH sundur spilaði þá heldur auðveldlega sem varð til þess að þjálfarateymi gerði tvær breytingar í hálfleik og fóru í þriggja manna varnarlínu. 

Það var með hreinum ólíkindum að staðan hafi verið markalaus í hálfleik. Steven Lennon, Jónatan Ingi og fleiri leikmenn FH fóru heldur illa með færin sem þeir fengu í kvöld. 

Mark Steven Lennon gerði það að verkum að þeir geta hlegið af þessu í stað þess að eiga í  vandræðum með að festa svefn í kvöld. 

Hvað gerist næst?

Fylkir fara næst á Meistaravelli þar sem þeir mæta KR þar næsta mánudag klukkan 19:15.

Sambandsdeildin er næst á dagskrá hjá FH þar sem Rosenborg kemur í heimsókn næsta fimmtudag klukkan 19:00.

Atli Sveinn: Arnór Borg mun klára tímabilið í Fylki.

Atli Sveinn var afar svekktur með úrslit kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Atli Sveinn Þórarinsson þjálfari Fylkis var afar svekktur með tap kvöldsins.

„FH áttu sigurinn skilið, FH voru betri í fyrri hálfleik og því var þetta sanngjörn niðurstaða í heildina litið," sagði Atli Sveinn

Atli Sveinn gat glaðst yfir frammistöðu Arons Snæ í marki Fylkis sem varði oft á tíðum mjög vel.

„Aron Snær var frábær í dag, við vorum heppnir að leikurinn var markalaus þegar við héldum til hálfleiks." 

Varnarleikur Fylkis var í molum í fyrri hálfleik því neyddist Atli Sveinn til að gera tvær breytingar í hálfleik.

„Hlutirnir voru ekki að ganga í fyrri hálfleik. Við breyttum því í þriggja manna vörn sem mér fannst ganga betur en dugði því miður ekki til."

Rétt áður en FH komst yfir klikkaði Arnór Borg á dauðafæri sem var ansi svekkjandi fyrir Fylki.

„Það var mjög svekkjandi að hafa ekki náð inn marki á þeim tímapunkti. Þetta féll með þeim í dag og ég óska þeim til hamingju með sigurinn."

Það hefur verið mikið rætt og ritað hvort Arnór Borg Guðjohnsen muni fara frá Fylki í glugganum eða muni skrifa undir hjá öðru félagi fyrir næstu leiktíð.

„Arnór Borg mun klára tímabilið hjá Fylki hann er ekki að fara neitt," sagði Atli Sveinn að lokum.

Ég sagði við strákana í hálfleik að Fylkir yrðu ekki svona slakir í síðari hálfleik

Ólafur var sáttur með stigin þrjúVísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Ólafur Jóhannesson þjálfari FH var afar kátur með fyrsta sigur sinn í Pepsi Max deildinni sem þjálfari FH.

„Það voru léttir að vinna loksins deildarleik það er enginn spurning."

Staðan var markalaus þegar haldið var til hálfleiks. FH fóru illa með ansi mörg dauðafæri.

„Við héldum áfram að gera það sama í seinni hálfleik. Ég sagði við strákana í hálfleik að Fylkis liðið yrði ekki svona lélegt í seinni hálfleik svo við þurftum að vera vakandi." 

„Heilt yfir fannst mér þetta sanngjörn niðurstaða, Gunnar varði vel á köflum og er ég mjög ánægður með stigin þrjú." 

Ólafur var jákvæður eftir leik og var ánægður með margt í liði FH.

„Mér fannst vinnusemin góð og við héldum boltanum vel, vonandi er okkar leikur á uppleið."

Ólafur Guðmundsson nýjasti leikmaður FH var í byrjunarliðinu í kvöld og var Ólafur ánægður með hans leik.

„Mér fannst hans leikur góður í kvöld, ég var sáttur með hans leik. Þetta er góður fótbolta maður sem er í góðu standi svo ég er spenntur að fylgjast með honum í framtíðinni," sagði Ólafur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.