Erlent

Ákæra Írana fyrir að ætla að ræna konu frá New York

Samúel Karl Ólason skrifar
Masih Alinejad hefur lengi verið gagnrýnin í garð klerkastjórnar Írans.
Masih Alinejad hefur lengi verið gagnrýnin í garð klerkastjórnar Írans. Getty/Larry Busacca

Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa ákært fjóra Írana fyrir að hafa ætlað að ræna bandarískri blaðakonu og aðgerðasinna. Konan, sem heitir Masih Alinejad, hefur verið gagnrýnin á klerkastjórn Írans en mennirnir fjórir eru taldir vera útsendarar hennar.

Á undanförnum árum hafa útsendarar frá Íran platað nokkra erlenda aðgerðasinna til að leggja land undir fót og ferðast til staða þar sem þeim hefur verið rænt og þeir fluttir til Írans og fangelsaðir.

Í ákærunni kemur ekki fram hvert meint fórnarlamb mannanna er en það hefur þó verið staðfest af fjölmiðlum ytra að um Alinejad er að ræða. Hún hefur meðal annars starfað fyrir persenska stöð Voice of America og fjallað um mannréttindabrot í Íran.

Alinejad sjálf sagði frá þessum vendingum á Twitter í gærkvöldi.

William F. Sweeney, einn yfirmanna Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) sagði í yfirlýsingu sem birt var í gær að ógnin væri raunveruleg.

„Þetta er ekki einhver langsóttur kvikmyndasöguþráður. Við teljum að hópur, studdur af ríkisstjórn Írans, hafi lagt á ráðin um að ræna bandarískum blaðamanni, í Bandaríkjunum, og flytja hana til Írans,“ sagði Sweeney samkvæmt frétt Washington Post.

Saksóknarar segja einnig að útsendarar Írans hafi reynt að múta fjölskyldumeðlimum Alinejad sem búa í Íran til að fá þá til að plata hana að ferðast til annars lands. Lands þar sem auðveldara væri að ræna henni.

Ráðamenn í Íran segja þessar ásakanir rangar.

Hér má sjá viðtal CNN við Alinejad sem birt var í dag þar sem hún ræðir málið og segir frá því að útsendarar Írans hafi ráðið einkaspæjara til að fylgjast með henni og fjölskyldu hennar í New York, þar sem hún býr. Þeir eru sagðir hafa fylgt henni eftir og myndað hana.

Allir mennirnir fjórir sem voru ákærðir búa í Íran. Verulega ólíklegt þykir að mennirnir endi nokkurn tímann í dómsal í Bandaríkjunum. Einn maður til viðbótar, sem sagður er hafa stutt mennina fjóra, hefur þó verið handtekinn í Kaliforníu.

Bandaríkin og Íran hafa lengi deilt um eldflauga- og kjarnorkuáætlanir Írans og hefur ýmis konar viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum verið beitt gegn Íran. Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland, Frakkland og Þýskaland gerðu árið 2015 samkomulag við Íran um að létt yrði á refsiaðgerðum í skiptum fyrir það að eftirlitsaðilar fengju að fylgjast með kjarnorkuáætlun ríkisins.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sleit Bandaríkin frá því samkomulagi en meðlimir ríkisstjórnar Bidens hafa gefið í skyn að mögulegt sé að endurvekja samkomulagið. Viðræður þar að lútandi hafa þau engum árangri skilað.

AFP fréttaveitan sagði frá því í dag að ríkisstjórn Joes Biden hefði gefið yfirvöldum í Íran leyfi til að nota sjóði sem hafa verið frystir til að greiða skuldir ríkisins í Suður-Kóreu og Japan.

Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði samkomulagið ekki fela í sér að sjóðirnir yrðu fluttir til Írans. Heldur yrðu þeir eingöngu notaðir til að greiða Suður-Kóreu og Japan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×