Um­fjöllun og við­töl: Fylkir - Breiða­blik 0-4 | Auð­veldur sigur Blika í Ár­bænum

Dagur Lárusson skrifar
Blikar hafa unnið báða leikina gegn Fylkiskonum í sumar, samtals 13-0.
Blikar hafa unnið báða leikina gegn Fylkiskonum í sumar, samtals 13-0. vísir/Hulda Margrét

Breiðablik var ekki í vandræðum með Fylki í Pepsi Max deild kvenna í kvöld en lokatölur voru 4-0 þar sem Breiðablik skoraði meðal annars beint úr hornspyrnu.

Fylkisstúlkur byrjuðu leikinn nokkuð vel og mættu frábæru liði Blika af miklum krafti. Blikar náðu hins vegar forystunni á 34.mínútu þegar þær fengu hornspyrnu. Það var Áslaug Munda sem tók hornspyrnuna og gaf frábæra sendingu inn á teig, yfir alla og beint í hliðarnetið hjá fjarstönginni. Mögnuð spyrna hjá Áslaugu. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleiknum.

Seinni hálfleikurinn var síðan algjörlega í eigu Blika. Áslaug munda fékk boltann út á kannt til sín á 56.mínútu þar sem hún setti boltann framhjá varnarmanni Fylkis og stakk hann síðan af áður en hún opnaði líkama sinn glæsilega og kláraði meistaralega í fjarhornið. Alveg óverjandi og magnað einstaklings framtak hjá Áslaugu.

Fylkisstúlkur virtust gefast upp eftir þetta mark og því var ekki langt í þriðja mark Blika. Það kom á 63.mínútu þegar mikill darraðadans myndaðist í vítateig Fylkis sem endaði með því að boltinn barst til Taylor Marie sem þrumaði boltanum í netið. Síðasta mark Blika kom svo í uppbótartíma en þar var á ferðinni Hildur Antonsdóttir sem var nýkomin inn á völlinn af varamannabekknum.

Lokatölur 4-0 fyrir Breiðablik sem er nú komið aftur á toppinn, a.m.k um stundarsakir á meðan Fylkir situr ennþá í næstneðsta sæti deildarinnar með níu stig.

Afhverju vann Breiðablik?

Þegar lið er með leikmenn á borð við Áslaugu og Öglu á sitthvorum kantinum þá verður alltaf erfitt að koma í veg fyrir að þær skori. Áslaug átti algjörlega frábæran leik og lék á alls oddi. Hún hefði getað skorað fleiri mörk en þau mörk sem hún skoraði voru mögnuð.

Hverjir stóðu uppúr?

Áslaug Munda. Þvílíkur leikur hjá henni og þvílík mörk, hún á allt lof skilið eftir þessa frammistöðu. Þær Kristín Dís og Heiðdís voru einnig mjög öruggar í öllum sínum aðgerðum í vörn Blika og gáfu mjög fá færi á sér.

Hvað fór illa?

Fylkisstúlkur komust oft í álitlegar stöður framarlega á vellinum en það gerðist ótal sinnum þar sem þær fengu boltann á þessum stöðum en áttu þá misheppnaðar sendingar upp völlinn. Það var eins og það vantaði eitthvað öryggi í sóknarmenn Fylkis, þær voru of fljótar á sér og hefðu oft getað gert mikið betri hluti með boltann heldur en þær voru að gera.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Breiðabliks er gegn ÍBV á heimavelli á meðan Fylkir fer í heimsókn til Tindastóls í leik sem þær mega alls ekki tapa.

Vilhjálmur: Lykillinn er að halda áfram að berjast

Þjálfari Breiðabliks, Vilhjálmur Kári Haraldsson, var ánægður í leikslok.vísir/hulda margrét

„Þetta var bara frábært. Mikil barátta hjá stelpunum, fínir spilkaflar og flott mörk, ég er mjög sáttur,“ byrjaði Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks, á að segja.

„Mér fannst spilamennskan bara fín. Eins og ég segi þá áttum við fína spilkafla, en ég hefði kannski viljað fá aðeins fleiri opin færi en leikurinn spilaðist eins og hann spilaðist.“

Áslaug Munda átti frábæran leik í liði Blika og segir Vilhjálmur að liðið hafi aðeins verið búið að bíða eftir mörkum frá henni.

„Hún er auðvitað frábær leikmaður, það vita það allir. Við höfum aðeins verið að bíða eftir mörkunum frá henni og þess vegna var það gott að þau komu í kvöld.“

Það hefur vantað stöðuleika í úrslitin hjá Blikum í sumar en Vilhjálmur telur að lykilinn að því að finna stöðuleikann sé einfaldlega að halda áfram að berjast.

„Lykilinn að því að finna stöðuleikann er bara einfaldlega að halda áfram að berjast, það er svo ótrúlega einfalt. Þetta er erfið deild og það er ekkert gefins í þessu og þess vegna verðum við bara halda áfram að berjast,“ endaði Vilhjálmur á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira