Erlent

Prinsarnir afhjúpuðu styttu af Díönu prinsessu

Árni Sæberg skrifar
Bræðurnir hittust í fyrsta skipti síðan í apríl.
Bræðurnir hittust í fyrsta skipti síðan í apríl. Twitter/KensingtonRoyal

Bretaprinsarnar Vilhjálmur og Harry afhjúpuðu styttu af móður sinni Díönu prinsessu af Wales við hátíðlega athöfn í garði Kensington-hallar.

Bræðurnir pöntuðu styttuna árið 2017 í þeim tilgangi að minnast móður sinnar og að aðstoða gesti Kensington-hallarinnar til að minnast hennar og íhuga líf hennar og arfleifð.

Díana prinsessa hefði orðið sextug í dag ef henni hefði enst aldur til en hún lést í bílslysi í París árið 1997.

Áhugamönnum um bresku konungsfjölskylduna finnst athöfnin merkileg fyrir þær sakir að bræðurnir talast varla við þessa dagana. Athöfnin er fyrsti opinberi viðburðurinn sem þeir sækja saman síðan útför afa þeirra, Filippusar prins, fór fram í apríl síðastliðnum.

Ian Rank-Broadley var valinn til að hanna styttuna en hann hefur mikla reynslu í að móta styttur af meðlimum bresku konungsfjölskyldunnar.

Prinsarnir tóku virkan þátt í hönnun styttunnar en þeir vildu að hún endurspeglaði þau jákvæðu áhrif sem Díana hafði á Bretland og heiminn í heild. 

Athöfnin var lítil í takt við tíðarandann

Harry, sem býr nú í Bandaríkjunum með eiginkonu sinni Meghan og tveimur börnum, mætti til Bretlands í síðustu viku til að hafa lokið við sóttkví fyrir viðburð dagsins í dag.

Auk þeirra bræðra hefur breska konungsfjölskyldan staðfest að meðlimir úr nánustu fjölskyldu Díönu munu vera viðstaddir afhjúpunina, ásamt fulltrúum nefndar sem hélt utan um gerð styttunnar og hönnun garðsins þar sem hana verður að finna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×