Erlent

Ásakendur Cosby slegnir

Kjartan Kjartansson skrifar
Bill Cosby, sem nú er 83 ára gamall, var sigurreifur þegar hann sneri heim til sín úr fangelsi í gær.
Bill Cosby, sem nú er 83 ára gamall, var sigurreifur þegar hann sneri heim til sín úr fangelsi í gær. AP/Matt Slocum

Mikið reiði og undran hefur brotist út eftir að Bill Cosby var sleppt úr fangelsi eftir að sakfelling hans fyrir kynferðisbrot var ógilt í gær. Konur sem báru hann sökum segjast slegnar yfir niðurstöðunni.

Hæstiréttur Pennsylvaníu ógilti þriggja til tíu ára fangelsisdóm sem Cosby hlaut fyrir að byrla Andreu Constand ólyfjan og misnota hana kynferðislega í gær. Töldu dómarar að saksóknarinn sem sótti málið hafi verið bundinn af samkomulagi sem forveri hans gerði við Cosby um að hann yrði ekki sóttur til saka.

Cosby var sleppt úr fangelsi strax í dag en hann hefur afplánað um þrjú ár af fangelsisdómnum. Hélt hann sigurmerki á lofti fyrir framan fréttamenn þegar hann kom heim til sín í Fíladelfíu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Tugir kvenna hafa opinberlega sakað Cosby um að misnota sig. Hann var hins vegar aðeins ákærður fyrir að brjóta gegn Constand, fyrrverandi körfuboltakonu, árið 2004.

Constand og lögmenn hennar sögðu niðurstöðuna vonbrigði og að þau óttuðust að hún gæti fælt konur sem hafa verið fórnarlömb kynferðisofbeldis að stíga fram og krefjast réttlætis.

Patricia Leary Steuer, önnur kona sem sakar Cosby um ofbeldi, sagði CNN að niðurstaðan í gær fengi hana til að efast um hver tilgangurinn hafi verið með þeim raunum sem hún og fjölskylda hennar hafi má þola vegna málsins.

„Ég er furðu lostin, ég er í áfalli og maginn minn er í hnút,“ sagði Janice Baker-Kinney sem sakaði Cosby um að byrla sér lyf og nauðga sér á 9. áratug síðustu aldar.

Ekki eru allir óánægðir með dóminn. Phylicia Rashad, sem lék eiginkonu persónu Cosby í þáttunum „Fyrirmyndarföður“ (e. Cosby Show), fagnaði á samfélagsmiðlinum Instagram.

„Loksins!!! Það hefur verið rétt úr hræðilegu óréttlæti, réttarmorð hefur verið snúið við,“ skrifaði Rashad.


Tengdar fréttir

Dómurinn yfir Bill Cos­by ó­giltur

Hæstiréttur Pensylvaníu í Bandaríkjunum hefur ógilt kynferðisbrotadóminn yfir leikaranum Bill Cosby. Dómstóllinn komst að þessari niðurstöðu vegna tæknilegs atriðis sem ekki taldist samræmast reglum dómstólanna í ríkinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.