Erlent

Grænlenskar riffilstúlkur til barnaverndarnefndar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá höfninni í Ilulissat við Diskó-flóa á vesturströnd Grænlands.
Frá höfninni í Ilulissat við Diskó-flóa á vesturströnd Grænlands. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Grænlensku stúlkurnar þrjár, sem lögregla handók í gær fyrir að skjóta á þorpið Ikamiut við Diskó-flóa, hafa verið færðar í umsjón barnaverndaryfirvalda. Þær reyndust allar undir átján ára aldri og teljast því vera börn í skilgreiningu laganna.

Lögreglan upplýsir að frumrannsókn bendi til að ferðalag stúlknanna hafi byrjað í öðru þorpi, Oqaatsuut, sem er norður af bænum Ilulissat. Þar stálu þær smábáti og sigldu áfram til bæjarins Qasigiannguit. Þar stálu þær eldsneyti í því skyni að geta siglt áfram til þorpsins Ikamiut, sem er talsvert fyrir sunnan Ilulissat, að því er varðstjóri lögreglunnar greinir frá í viðtali við Sermitsiaq.

Þar segjast þær hafa lent í vandræðum með vélina. Þær gefa þá skýringu að þær hafi hleypt af skotum til að vekja athygli á sér til að fá hjálp. Lögreglan tekur fram að málið sé enn til rannsóknar.

Í tilkynningu lögreglunnar í gær sagði hins vegar að stúlkurnar hefðu skotið af rifflum þegar fulltrúi yfirvalda hugðist framkvæma borgaralega handtöku vegna bátsstuldarins.

Eftir að lögregla kom á vettvang náðist talstöðvarsamband við stúlkurnar og féllust þær á að leggja frá sér vopnið.

„Þetta gekk allt friðsamlega fyrir sig,“ segir lögregluvarðstjórinn.


Tengdar fréttir

Grænlenskar stúlkur létu riffilskotin vaða

Uppnám varð í þorpinu Ikamiut á vesturströnd Grænlands í dag þegar þrjár stúlkur á stolnum báti tóku upp á því að skjóta á þorpið af bátnum utan við höfnina. Íbúar voru beðnir um að halda sig frá hafnarsvæðinu meðan beðið væri aðstoðar lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×