Íslenski boltinn

Vill sjá Tindastól sækja sér liðsstyrk í glugganum til að nýta meðbyrinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tindastóll hefur tapað fimm leikjum í röð í Pepsi Max-deild kvenna.
Tindastóll hefur tapað fimm leikjum í röð í Pepsi Max-deild kvenna. vísir/Sigurbjörn Andri Óskarsson

Tindastóll þarf að fá liðsstyrk þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður til að eiga betri möguleika á að halda sæti sínu í Pepsi Max-deild kvenna. Þetta segir Árni Freyr Guðnason, einn sérfræðinga Pepsi Max markanna.

Tindastóll tapaði fyrir Keflavík, 1-0, í nýliðaslag suður með sjó á laugardaginn. Þetta var fimmta tap Stólanna í röð en þeir eru á botni deildarinnar með fjögur stig.

Murielle Tiernan, aðalmarkaskorari Tindastóls, hefur glímt við meiðsli og Stólararnir mega illa við að vera án hennar.

„Murielle er algjör lykilmaður hjá Tindastóli. Þær þurfa á henni að halda. Hún kom inn á í hálfleik, búin að vera meidd. Án hennar er sóknarleikurinn veikburða. Það er bara þannig,“ sagði Árni.

Klippa: Pepsi Max mörkin - Umræða um Tindastól

Hann vill að Stólarnir sæki sér liðsstyrk þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður 29. júní.

„Ég væri til í að sjá, því það er gríðarlegur meðbyr með Tindastóli og mikil stemmning í kringum þetta, þá sækja einn til tvo leikmenn í glugganum. Þær þurfa bara smá í viðbót,“ sagði Árni.

Næsti leikur Tindastóls er gegn Selfossi á heimavelli á miðvikudaginn.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×