Íslenski boltinn

Lof og last 9. um­ferðar: Upp­legg Breiða­bliks, Hannes Þór, Helgi Valur, ó­sýni­legir FH-ingar og Dino Hodzic

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Helgi Valur fagnar með liðsfélögum sínum eftir mark hans í 3-1 sigri liðsins á ÍA.
Helgi Valur fagnar með liðsfélögum sínum eftir mark hans í 3-1 sigri liðsins á ÍA. Vísir/Hulda Margrét

Níundu umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu lauk í gærkvöld. Það hefur mikið gengið á undanfarna tvo daga og hér að neðan má sjá hvað á skilið lof og hvað á skilið last.

Taka skal fram að þetta er eingöngu skoðun blaðamanns og er aðallega gert til skemmtunar.

Lof

Upplegg Breiðabliks

Eftir jafnar upphafsmínútur í leik Breiðabliks og FH þá tóku Blikar öll völd á vellinum og keyrðu einfaldlega yfir Hafnfirðinga. Leikkerfi Breiðabliks kom á óvart að því leytinu til að Höskuldur Gunnlaugsson lék í stöðu hægri bakvarðar en sótti mikið inn á miðjuna. 

Sú hugmynd gekk frábærlega og þó Breiðablik hafi unnið 4-0 var sigurinn síst of stór.

Hannes Þór Halldórsson

Var stórkostlegur í 3-1 sigri Vals á Breiðablik fyrir nokkrum dögum síðar. Átti ekki jafn frábærar vörslur í 1-0 sigri Íslandsmeistaranna á KA er liðin mættust á Dalvík en varði að engu síður vítaspyrnu og á því skilið lof. Ekki aðeins besti markvörður Pepsi Max deildarinnar heldur sá langbesti.

Þá lét hann einnig til sín taka eftir leik.

Joey Gibbs

Annan leikinn í röð vinna Keflvíkingar. Annan leikinn í röð heldur Keflavík hreinu. Annan leikinn í röð skorar Josep Arthur Gibbs. Hann fær því hrósið þó svo að margir aðrir leikmenn liðsins hafi komið til greina eftir góðan 1-0 sigur á Leikni Reykjavík.

Helgi Valur Daníelsson

Það hefur verið mikið rætt og ritað um háan aldur leikmanna í Pepsi Max deildinni það sem af er sumri en það er öllum ljóst að ef Helgi Valur á góðan leik þá á Fylkir góðan leik. Hann lenti í ömurlegum meiðslum á síðustu leiktíð og var talið að skórnir færu aftur upp í hillu, þessi þaulreyndi miðjumaður var hins vegar ekki á því.

Helgi Valur skoraði sitt fyrsta mark í sumar með góðu skoti úr teignum er hann jafnaði metin í 3-1 sigri Fylkis á ÍA. Hann gerði sig í kjölfarið líklegan til að bæta við marki en lét sér nægja að leggja upp þriðja mark Árbæinga þó svo að það mark skráist alfarið á markvörð Skagamanna, meira um það hér að neðan.

Last

Dino Hodžić

Dino átti ekki sinn besta leik í 3-1 tapi Skagamanna gegn Fylki. Annað mark Fylkis fór hálfpartinn í gegnum markvörðinn hávaxna en mögulega sá hann boltann seint. 

Þriðja mark Fylkis skráist hins vegar alfarið á Dino sem missti aukaspyrnu af þröngu færi í gegnum klofið og yfir línuna. Má segja að það mark hafi endanlega gert út um leikinn.

Dino Hodžić vill eflaust ekki sjá endursýningu af þriðja marki Fylkis.Vísir/Hulda Margrét

Ósýnilegir FH-ingar

Hafnfirðingar hafa nú spilað fimm leiki án þess að landa sigri. Það sem meira er þá hefur liðið aðeins skorað tvö mörk í þessum fimm leikjum. Hér væri hægt að lista upp nánast allt byrjunarlið FH en liðið beið afhroð á Kópavogsvelli. Lokatölur 4-0 og sigur Blika síst of stór.

Margir FH-ingar virtust annað hvort nær ósýnilegir í leiknum þar sem þeir sáust einfaldlega ekki eða þegar þeir sáust þá þóttust þeir vera að leika keilur. Besta dæmið um það var annað mark Blika sem má sjá í spilaranum hér að neðan. Það var líkt og Blikar væru í uppspils æfingu þar sem ekki mætti klukka liðið með boltann.

Vítaspyrnur KA manna

KA brenndi af tveimur vítaspyrnum í 0-1 tapi gegn Val. Akureyringar hafa nú brennt af fjórum vítaspyrnum í röð og gætu þau verið dýrkeypt þegar uppi er staðið. Hallgrímur Mar Steingrímsson brenndi af víti í 0-1 tapi gegn Víkingum. Jonathan Hendrickx og Sebastiaan Brebels gerðu svo slíkt hið sama í þessu 0-1 tapi gegn Val.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.