Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Breiðablik 0-4 | Blikar á toppinn eftir stórsigur á Selfossi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Agla María Albertsdóttir skoraði og lagði upp í stórsigri Blika gegn Selfyssingum.
Agla María Albertsdóttir skoraði og lagði upp í stórsigri Blika gegn Selfyssingum. Vísir/Bára

Topplið Selfoss fékk skell gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í fyrsta leik liðanna eftir landsleikjahlé. Íslandsmeistararnir unnu sannfærandi 4-0 sigur eftir að skipta þurfti um völl rétt fyrir upphafssparkið.

Dómarar og þjálfarar leiksins funduðu um góða stund fyrir leik, og þegar fundarhöldum var lokið var ákveðið að færa leikinn af grasinu og yfir á gervigrasið hinumegin við stúkuna. Ástæðan var sú að línurnar á grasvellinum voru mjög óskýrar og dómarar leiksins treystu sér ekki til að dæma vafaatriði, skyldi það koma upp.

Bæði lið samþykktu að leikurinn skyldi fara fram og hann hófst loksins rétt rúmum tíu mínútum eftir auglýstan tíma.

Breiðablik byrjuðu leikinn betur og áttu í það minnsta tvö hálffæri á upphafsmínútunum, en náðu þó ekki að reyna almennilega á Benedicte Håland í marki Selfyssinga.

Það var þó strax á tíundu mínútu sem gestirnir brutu ísinn. Þóra Jónsdóttir fékk þá boltann í vörn Selfyssinga, en Agla María Albertsdóttir komst inn í kæruleysislega sendingu hennar. Agla María var ekkert að tvínóna við hlutina og lét vaða af rúmlega 20 metra færi og þrumuskot hennar endaði í stönginni, og þaðan inn.

Lítið var að frétta næstu mínútur, en á 37.mínútu fengu gestirnir hornspyrnu. Agla María tók spyrnuna stutt, fékk hann aftur og gaf boltann fyrir. Fyrirgjöf hennar var heldur ónákvæm, en endaði ofan á slá Selfyssinga og heimakonur sluppu með skrekkinn.

Tveim mínútum síðar tók Ásta Eir innkast á vallarhelmingi Selfyssinga og Karítas Tómasdóttir framlengdi boltanum á Taylor Marie Ziemer. Taylor lét vaða af mjög svipuðum stað og Agla María fyrr í leiknum og boltinn söng í netinu. Gestirnir fóru því með 2-0 forystu í hálfleikinn.

Selfyssingar mættu heldur frískari til leiks eftir hálfleikinn og komust jafnt og þétt aftur inn í leikinn.

Nokkur hálffæri litu dagsins ljós, en hvorugu liðinu tókst að finna netmöskvana fyrr en tæpar fimm mínútur voru til leiksloka. Agla María Albertsdóttir átti þá frábæra fyrirgjöf utan af hægri kanti, beint á ennið á Karítas Tómasdóttir sem stangaði boltann í netið gegn sínum gömlu félögum.

Þegar um mínúta var svo komin fram yfir venjulegan leiktíma varð vandræðagangur í vörn Selfyssinga þar sem Benedicte Håland misstókst að hreinsa boltann frá. Hann datt þá fyrir Þórdísi Hrönn sem fann Birtu Georgsdóttir, en hún var þá ein fyrir opnu marki og eftirleikurinn auðveldur.

Niðurstaðan varð því 4-0 sigur gestanna sem lyfta sér á topp Pepsi Max deildarinnar með 15 stig. Selfyssingar eru hinsvegar dottnir niður í það þriðja, enn með 13 stig.

Af hverju vann Breiðablik?

Heilt yfir voru gestirnir frá Kópavogi sterkari aðilinn í leiknum og áttu sigurinn skilinn. Þær refsuðu grimmt fyrir mistök Selfyssinga og lokuðu að stórum hluta á sóknaraðgerðir heimakvenna.

Hverjir stóðu upp úr?

Agla María Albertsdóttir átti góðan dag á Selfossi. Hún skoraði fyrsta mark Blika og lagði upp það þriðja og var oft á tíðum ógnandi þegar hún fékk boltann.

Telma Ívarsdóttir getur líka verið sátt með sinn leik í marki gestanna. Þó að hún hafi kannski ekki oft þurft að taka á þeim stóra sínum þá virkaði hún mjög örugg í sínum aðgerðum og tók þá bolta sem komu á markið.

Hvað gekk illa?

Selfyssingum gekk lengi vel illa að skapa sér færi. Auk þess má skrifa tvö af þessum fjórum mörkum á vandræðagang í vörninni, en fyrsta markið kom eftir kæruleysislega sendingu og það fjórða eftir að þeim mistókst að hreinsa boltann frá.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins næstkomandi föstudag klukkan 19:15. Breiðablik tekur á móti Aftureldingu og Þróttur R. mætir í heimsókn á Jáverk-völlinn á Selfossi.

Næstu leikir liðanna í deild eru svo á miðvikudaginn eftir viku, en þá fer Selfoss norður og mætir Tindastól og Breiðablik tekur á móti Stjörnunni.

Alfreð: Boltinn er bara þannig, stundum upp og stundum niður

Alfreð var ósáttur við það hversu stórt tap Selfyssinga var í kvöld.Vísir/Bára

„Ég er náttúrulega bara ósáttur með að hafa tapað 4-0,“ sagði Alfreð í leikslok. „En það er staðreynd og við vorum að spila á móti mjög góðu liði.“

„Við gerum tvö mistök í fyrri hálfleik og þær refsa okkur. Annað markið kom úr innkasti og þær skora af 20 metrum. En þetta er það sem alvöru lið gera, þau refsa.“

Breiðablik stjórnaði leiknum stærstan hluta leiksins og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Það var ekki fyrr en í seinni hálfleik sem Selfyssingar fóru að skapa sér nokkur færi.

„Við vorum kannski aðeins of fyrirsjáanlegar í sóknarleiknum. Við þurfum aðeins að poppa það upp. En ég var mjög ánægður með seinni hálfleikinn þar sem við fengum nokkra sénsa og lágum svolítið á þeim. En það gekk ekki alveg í þetta skiptið.“

Selfyssingar byrjuðu mótið af miklum krafti og unnu fyrstu fjóra leiki sína. Síðan þá hafa þær hinsvegar tapað tveim og gert eitt jafntefli.

„Það sem við þurfum að gera núna er bara að halda áfram að æfa vel. Það er kraftur í þessum stelpum, en aftur á móti er þetta ekki búið að ganga vel í seinustu þrem leikjum og lítil uppskera. En boltinn er bara þannig, stundum upp og stundum niður og nú þarf bara að standa saman og halda áfram.“

Leikurinn í kvöld var færður af grasvellinum á Selfossi og yfir á gervigrasið á seinustu stundu þar sem að dómarum leiksins fannst línurnar á grasvellinum ekki nógu sýnilegar. Alfreð segir þó að það hafi ekki haft áhrif á hópinn, og hrósaði dómurunum fyrir vel unnin störf í kvöld.

„Nei, það hafði engin áhrif. Dómaratríóið stóð sig bara mjög vel í þessum leik og þetta var eiginlega bara það langbesta sem ég hef fengið í sumar og ekkert út á það að setja. Línurnar sáust bara ekki á vellinum þarna hinumegin og við erum með nýtt og gott gervigras hérna þannig það var upplagt að nota það.“

Vilhjálmur: Það hjálpaði okkur töluvert að eiga slakan leik síðast

Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks, segir að slakur leikur í síðustu umferð hafi hjálpað liðinu að gíra sig upp fyrir leikinn gegn Selfyssingum.vísir/Sigurjón

„Mér fannst þetta bara góður leikur hjá stelpunum,“ sagði Vilhjálmur Kári, þjálfari Breiðabliks eftir sigur kvöldsins. „Þær voru ákafar og grimmar og pressuðu vel. Mér fannst það bara skila sigrinum í kvöld.“

Breiðablik gaf Selfyssingum ekki mörg færi á sér og Vilhjálmur segir uppleggið í kvöld hafa verið að loka vel á sóknarlínu Selfyssinga.

„Við lögðum upp með það að pressa og að þær næðu ekki að koma auðveldum boltum í gegn. Það var lögð mikil áhersla á það. Það hjálpaði okkur töluvert að eiga slakan leik síðast því að þá voru allir bara svolítið gíraðir í að bæta fyrir það, það hjálpar líka í svona leik.“

Breiðablik settist á topp Pepsi Max deildarinnar með sigrinum, en Vilhjálmur segir nóg eftir af Íslandsmótinu og að það megi búast við mikilli spennu.

„Það er bara bikar næst á móti Aftureldingu sem er bara hörkulið. Síðan heldur þetta bara áfram, Stjarnan og Þróttur núna á næstunni.“

„Ég hef margsinnis sagt að þetta eru allt erfiðir leikir. Þetta eru allt leikir sem byrja 0-0 og við höfum átt góða leiki og við höfum líka átt slæma leiki og tapað. Þetta verður bara svona. Þetta verður barátta í allt sumar og spenna alveg fram í síðustu umferð. Ég get lofað yffur því,“ sagði Vilhjálmur að lokum.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira