Enski boltinn

Solskjær vonast eftir að fá að versla stórstjörnur í sumar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. vísir/Getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, telur að félagið þurfi að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar eigi það að geta keppt um stærstu titlana.

Manchester United hafnaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar en var ekki í keppni við meistara Man City um efsta sætið í síðustu umferðum mótsins.

„Við erum næstbestir en erum alltof langt frá því að ógna þeim sem unnu deildina. Við verðum að styrkjast. Að sjálfsögðu mun eitthvað gerast á leikmannamarkaðnum. Heimurinn hefur breyst mikið á síðustu mánuðum en við verðum að láta til okkar taka á markaðnum og líka bæta liðið,“ segir Solskjær sem segist stöðugt vera að uppfæra sig.

„Það er aldrei í boði að sitja eftir. Þú ert stöðugt að leitast eftir því að uppfæra þig. Fótboltinn er óútreiknanlegur. Ég mun aldrei setjast niður og hugsa: Núna og er liðið eins og ég vil hafa það alltaf. Því hlutirnir breytast svo hratt,“ segir Solskjær.

Norðmaðurinn á nú í viðræðum við stjórnarmenn félagsins um það hvað félagið ætlar að gera á leikmannamarkaðnum en Jadon Sancho og Harry Kane eru meðal leikmanna sem hafa verið orðaðir við félagið að undanförnu.

„Við viljum hafa bestu leikmennina hérna og félagið veit hvað ég vil. Ég veit ekki hvernig samtalið endar en ef við viljum keppa um stærstu titlana verðum við að hafa bestu leikmennina,“ segir Solskjær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.