Erlent

Panta 300 milljónir skammta af ó­sam­þykktu bólu­efni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Beðið eftir bólusetningu í Mumbai í Indlandi.
Beðið eftir bólusetningu í Mumbai í Indlandi. AP/Rajanish Kakade

Indversk stjórnvöld hafa pantað 300 milljónir skammta af bóluefni við kórónuveirunni sem ekki hefur verið samþykkt af lyfjaeftirliti landsins. Önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir landið og á annað hundrað þúsund greinast með veiruna á hverjum degi.

Bóluefnið sem um ræðir hefur ekki fengið nafn en er framleitt af indverska fyrirtækinu Biological E. Það hefur ekki enn verið samþykkt og er sem stendur í þriðja fasa prófana. Í tilkynningu frá indverskum stjórnvöldum segir að niðurstöður úr prófunum væru „lofandi.“ 

Illa hefur gengið að bólusetja indversku þjóðina, sem telur rúmlega 1,4 milljarða manna. Þegar þetta er skrifað hafa 220 milljónir skammta verið gefnar og minna en tíu prósent íbúa landsins hafa fengið minnst einn skammt. Það hefur aðallega verið skrifað á mikinn bóluefnaskort í ríkinu.

Útlit er fyrir að önnur bylgja faraldursins í Indlandi hafi náð toppi sínum og sé í rénun, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Staðreyndin er þó sú að enn greinast yfir 100 þúsund á dag með veiruna. Opinberar tölur segja yfir 340 þúsund hafa látist úr Covid-19 í landinu, en sérfræðingar óttast að tölur bæði yfir smitaða og látna séu stórlega vanáætlaðar í þessu næstfjölmennasta ríki heims.

Hingað til hafa heilbrigðisyfirvöld í Indlandi notast við þrjú bóluefni. Það eru Covishield og Covaxin, sem eru indversk, auk rússneska bóluefnisins Sputnik V. Lyfjaeftirlit Indlands gaf neyðarleyfi fyrir notkun Covaxin, en tölur um verkun þess, það er að segja hversu mikla vörn það veitir fyrir kórónuveirunni, hafa ekki verið gefnar út opinberlega.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.