Erlent

Gerir ráð fyrir að vera orðinn for­seti aftur í ágúst

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump er sagður viss um að hann verði aftur orðinn forseti áður en langt um líður.
Trump er sagður viss um að hann verði aftur orðinn forseti áður en langt um líður. James Devaney/Images

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur sagt nokkrum fjölda fólks að hann geri ráð fyrir að verða settur aftur í embætti forseta fyrir ágúst á þessu ári. Trump tapaði forsetakosningunum í nóvember á síðasta ári fyrir Joe Biden, sem var kjörinn til fjögurra ára.

Maggie Haberman, blaðamaður hjá New York Times, greinir frá þessum hugmyndum forsetans fyrrverandi á Twitter.

„Trump hefur sagt fjölda fólks sem hann er í samskiptum við að hann geri ráð fyrir því að vera settur aftur í embætti fyrir ágúst (nei, það er ekki þannig sem hlutirnir gagna fyrir sig, ég er bara að deila upplýsingum),“ skrifar Haberman á Twitter.

Samkvæmt fjölmiðlum í Bandaríkjunum hefur sú hugmynd, að Trump geti einfaldlega verið settur aftur í embætti á næstu mánuðum, átt auknu fylgi að fagna meðal stuðningsmanna forsetans fyrrverandi.

Á viðburði sem haldinn var í Dallas um helgina undir merkjum guðsótta og þjóðernishyggju sagði Sidney Powell, fyrrverandi lögmaður fyrir framboð Trumps, að það væri einfalt mál að setja Trump aftur í embætti og uppskar mikla gleði viðstaddra.

„Valdarán í anda Mjanmar“

Greint hefur verið frá því að Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, virtist á sama viðburði sýna hugmynd um „valdarán í anda Mjanmar,“ hugsað til þess að koma Trump aftur til valda, stuðning.

Í febrúar á þessu ári framdi mjanmarski herinn valdarán í landinu og fangelsaði Aung San Suu Kyi, kjörinn leiðtoga landsins. Í kjölfarið spratt upp mikil mótmælaalda sem herinn hefur svarað með hörku, þannig að fjöldi mótmælenda hefur verið drepinn.

Flynn hefur síðan hafnað því að hafa opinberlega veitt hugmyndinni um valdarán stuðning og sakað bandaríska fjölmiðla um falsfréttaflutning, líkt og Trump sjálfur hefur oft gert í gegnum tíðina.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.