Erlent

Af­brigðin endur­nefnd eftir grískum bók­stöfum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nú verða afbrigði veirunnar nefnd eftir grískum bókstöfum.
Nú verða afbrigði veirunnar nefnd eftir grískum bókstöfum. Getty

Afbrigði kórónuveirunnar hafa verið endurnefnd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, eftir grískum bókstöfum. Nú verða öll ný afbrigði veirunnar nefnd eftir þessu kerfi.

Nú verður því ekki lengur vísað til breska, suðurafríska eða indverska afbrigðisins heldur verður vísað til Alfa-afbrigðisins, Beta-afbrigðisins og svo framvegis.

Breska afbrigðinu var gefinn bókstafurinn Alfa, suðurafríska afbrigðinu Beta, því indverska Delta.

WHO segir að nafnbreytingarnar séu í von um að einfalda umræðu um veiruafbrigðin og til þess að koma í veg fyrir nokkurs konar fordóma. Fyrr í þessum mánuði gagnrýndu indversk yfirvöld að afbrigðið B.1.617.2, sem fyrst greindist í landinu í október, hafi verið nefnt „indverska-afbrigðið,“ þó svo að WHO hafi aldrei vísað til þess þannig.

„Ekkert land ætti að finna fyrir fordómum fyrir að greina og segja frá nýju afbrigði,“ sagði Maria Van Kerkhove, yfirmaður Covid-19 deildar WHO, í tísti.

Nýja nafnakerfið mun ekki koma í stað vísindalegra nafna afbrigðanna, en munu auðvelda almenningi að vísa til þeirra. Greinist meira en 24 afbrigði af veirunni - 24 bókstafir eru í gríska stafrófinu – mun nýtt nafnakerfi verða tekið í gildi og það tilkynnt ef að því kemur.

„Við ætlum ekki að skipta B.1.1.7 út fyrir nýja kerfið, en við erum að reyna að auðvelda hinum almenna borgara að tala um afrigðin,“ sagði Van Kerkhove, í samtali við STAT News.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×