Vinsældir Bolsonaro hafa snarminnkað eftir að faraldurinn skall á og gagnrýnendur segja að viðbrögð hans og ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið í samræmi við alvarleika sóttarinnar. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Rétt tæplega 460 þúsund hafa dáið af völdum kórónuveirunnar í Brasilíu, svo vitað sé. Hvergi annars staðar nema í Bandaríkjunum hafa svo margir farist af völdum veirunnar. Þá er landið í þriðja sæti hvað varðar smittölur, en meira en 16 milljónir hafa greinst smitaðir af veirunni.

Öldungadeild brasilíska þingsins hefur þegar efnt til rannsóknar á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og forsetans við faraldrinum og bóluefnaáætluninni sem hann stendur fyrir. Aðeins hefur tekist að bólusetja 21 prósent landsmanna með fyrri skammti bóluefnisins og dreifingaráætlunin er talin taka of langan tíma.
Stjórnarandstöðuflokkar, stéttafélög og aðgerðasinnar hafa sakað forsetann um að viljandi hægja á dreifingu bóluefnisins án þess að líta til afleiðinga þess. Faraldurinn hefur nær ekkert hægt á sér frá því hann barst til Brasilíu sem hefur nær knéfellt heilbrigðiskerfið í landinu.
Bolsonaru hefur á undanförnu ári lagst gegn hertum takmörkunum, útgöngubönnum og fleiru, og haldið því fram að áhrifin sem það hefði á efnahagslífið hefði verri afleiðingar en veiran sjálf á þjóðina. Hann hefur ítrekað sagt Brasilíumönnum að „hætta að væla“ vegna ástandsins.