Enski boltinn

Gylfi gaf sína fimmtugustu stoðsendingu í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Sigurðsson lagði upp sigurmark Everton í gær með glæsilegri hornspyrnu.
Gylfi Sigurðsson lagði upp sigurmark Everton í gær með glæsilegri hornspyrnu. AP/Jan Kruger

Gylfi Þór Sigurðsson náði tímamótastoðsendingu þegar hann lagði upp sigurmark Everton í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Hornspyrna Gylfa á 48. mínútu sigldi beint á höfðið á Brasilíumanninum Richarlison sem skallaði hann í netið og tryggði Everton 1-0 sigur á Úlfunum.

Gylfi er bæði markahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður Íslands í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Þetta var fimmta stoðsendingin hans á tímabilinu en hann hefur einnig skorað sex mörk. Stoðsendingar Gylfa í vetur hafa verið á Richarlison (3), Dominic Calvert-Lewin og Yerry Mina en fjórum af þessum fimm mörkum hafa verið skoruð með skalla.

Þetta var ennfremur fjórða sigurmarkið sem Gylfi leggur upp á leiktíðinni þar af hefur liðið þrjá af þeim leikjum 1-0.

Gylfi hefur einnig skorað tvö sigurmörk sjálfur og er því maðurinn á bak við sex sigurmörk Everton liðsins á leiktíðinni.

Gylfi hefur alls komið að 117 mörkum með beinum hætti á ferli sínum í ensku úrvalsdeildinni en hann er nú með 67 mörk og 50 stoðsendingar í 317 leikjum.

  • Flestar stoðsendingar íslenskra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni: 
  • (Tölfræði frá ensku úrvalsdeildinni)
  • 1. Gylfi Þór Sigurðsson 50
  • 2. Eiður Smári Guðjohnsen 28
  • 3. Jóhann Berg Guðmundsson 17
  • 4. Hermann Hreiðarsson 15
  • 5. Heiðar Helguson 9
  • 6. Grétar Rafn Steinsson 8



Fleiri fréttir

Sjá meira


×