Erlent

Aldrei fleiri dauðsföll á einum degi í faraldrinum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermenn færa tómar kistur til þess að geyma lík fólks sem hefur látust úr Covid-19 við sjúkrahús í borginni Jammu.
Hermenn færa tómar kistur til þess að geyma lík fólks sem hefur látust úr Covid-19 við sjúkrahús í borginni Jammu. AP/Channi Anand

Nýtt met yfir fjölda dauðsfalla í einu landi á einum sólarhring frá því að kórónuveiruheimsfaraldurinn hófst var sett á Indlandi í gær þegar yfirvöld tilkynntu að 4.529 manns hefðu látist. Nær öruggt er þó talið að raunverulegur fjöldi látinna sé hærri.

Ófremdarástand hefur ríkt á Indlandi vegna faraldursins undanfarnar vikur. Þrátt fyrir að færri greinist nú smitaðir en þegar bylgjan reis sem hæst var tilkynnt um 283.248 ný smit í gær. Það eru þó aðeins opinberar tölur og telja sérfærðingar að mun fleiri hafi smitast og látist í faraldrinum á Indlandi vegna þess hversu lítið hefur verið skimað þar hlutfallslega.

Fjöldi dauðsfalla síðasta sólarhringinn sló met sem var sett í Bandaríkjunum 12. janúar þegar 4.475 manns létust á einum sólarhring samkvæmt tölum Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum. Síðasta mánuðinn hefur fjöldi dauðsfalla í faraldrinum sexfaldast á Indlandi.

AP-fréttastofan segir að veiran breiðist nú út í dreifbýli þar sem heilbrigðisþjónusta og skimun er af skornum skammti. Sérstaklega er ástandið sagt slæmt í Uttar Pradesh, fjölmennsta ríki Indlands þar sem fleiri en 136.000 manns að minnsta kosti eru með virkt smit.

Fjöldi fólks í ríkinu er sagður látast af völdum hita og mæði áður en hann kemst nokkru sinni í sýnatöku. Líkin hrannast nú upp við Gangesfljót þar sem ekki til nægilega mikill viður til að bálstofur anni eftirspurn.


Tengdar fréttir

Heilu fjölskyldurnar sagðar hafa þurrkast út

Yfirvöld á Indlandi opinberuðu í morgun metfjölda látinna, þó nýsmituðum fari fækkandi. 4.329 ný dauðsföll voru tilkynnt og rúmlega 260 þúsund nýsmitaðir. Covid-19 herjar nú á dreifðari byggðir landsins þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu getur verið takmarkað.

Tilfellum fækkar á Indlandi en fjöldi látinna enn hár

Yfirvöld á Indlandi skráðu rúmlega fjögur þúsund dauðsföll vegna Covid-19 í morgun og höfðu 311.170 greinst smitaðir á undanförnum degi. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem dauðsföllum fækkar samkvæmt opinberum tölum og fjöldi nýsmitaðra hefur ekki verið lægri í rúmar þrjár vikur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×