Erlent

Gates sagður hafa átt í ástarsambandi við verkfræðing hjá Microsoft

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gates er sagður hafa verið þekktur fyrir að daðra við undirmenn sína.
Gates er sagður hafa verið þekktur fyrir að daðra við undirmenn sína. epa/Gian Ehrenzeller

Bill Gates sagði sig frá stjórnarstörfum hjá Microsoft árið 2020 í kjölfar þess að stjórnin réði lögmannsstofu til að rannsaka rómantískt samband hans við starfsmann fyrirtækisins. 

Frá þessu greinir Wall Street Journal en á dögunum var greint frá því að Melinda Gates hefði sótt um skilnað.

WSJ hefur eftir heimildarmönnum að verkfræðingur hjá Microsoft hafi greint frá því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Bill í einhver ár. Á meðan rannsókn stóð hafi ónafngreindir stjórnarmenn komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki við hæfi að Gates sæti áfram.

Hann hefði því sagt sig úr stjórninni áður en rannsókn málsins lauk.

Talsmaður Microsoft staðfesti í samtali við CNN Business í gærkvöldi að stjórnendur Microsoft hefðu verið upplýstir um það árið 2019 að Gates hefði leitast eftir því að hefja „náið“ samband við starfsmann fyrirtækisins árið 2000.

Talsmaður Gates sagði hins vegar við WSJ að hann hefði sannarlega átt í ástarsambandi fyrir um 20 árum en það hefði endað í sátt og að ákvörðun hans um að segja sig frá stjórnarstörfum hjá Microsoft hefði aðeins verið tekin til að Gates gæti einbeitt sér að mannúðarmálum.

New York Times hafði áður greint frá því að Gates hefði verið þekktur fyrir að reyna við konur sem störfuðu hjá Microsoft og góðgerðastofnun þeirra hjóna. Um þær ásakanir sagði talsmaður Gates miður að sögusagnir hefðu farið á flug í kjölfar fregna af skilnaðinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×