Íslenski boltinn

Enn eitt jafn­tefli Þróttar í Kefla­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Rut átti góðan leik í liði Þróttar í dag. Það dugði þó ekki til sigurs.
Andrea Rut átti góðan leik í liði Þróttar í dag. Það dugði þó ekki til sigurs. Vísir/Sigurbjörn Andri

Keflavík og Þróttur Reykjavík gerðu 2-2 jafntefli í leik liðanna í Pepsi Max deild kvenna í Keflavík nú rétt í þessu. Var þetta þriðja jafntefli Þróttar í jafn mörgum leikjum í sumar.

Heimastúlkur komust yfir strax á 10. mínútu leiksins þegar Aerial Chavarin skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu. Staðan orðin 1-0 og þannig var hún er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Gestirnir skoruðu tvívegis í upphafi síðari hálfleiks og voru því komnar 2-1 yfir á 55. mínútu leiksins. Fyrra markið skoraði Shea Moyer með góðum skalla eftir hornspyrnu Katherine Cousins. Það síðara skoraði Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir með skoti af stuttu færi eftir sendingu Andreu Rut Bjarnadóttur.

Varamaðurinn Amelía Rún Fjeldsted jafnaði hins vegar metin á 66. mínútu með frábæru skoti eftir langa sendingu Drafnar Einarsdóttur í gegnum vörn Þróttar. Staðan orðin 2-2 og reyndust það lokatölur leiksins.

Hvorugt lið hefur unnið leik til þessa en á meðan Þróttur Reykjavík hefur gert þrjú jafntefli þá hefur Keflavík gert tvö jafntefli og tapað einum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.