Erlent

Ahmadinejad aftur í forsetaframboð

Kjartan Kjartansson skrifar
Ahmadinejad þegar hann skráði framboð sitt í dag. Hæfnisnefnd stjórnvalda hafnaði framboði hans árið 2017.
Ahmadinejad þegar hann skráði framboð sitt í dag. Hæfnisnefnd stjórnvalda hafnaði framboði hans árið 2017. Vísir/EPA

Mahmoud Ahmadinejad, fyrrverandi forseti Írans, hefur skráð sig í framboð að nýju fyrir forsetakosningar sem fara fram í júní. Í forsetatíð sinni var Ahmadinejad þekktur sem harðlínumaður en hefur undanfarið reynt að hasla sér völl sem miðjumaður og verið gagnrýninn á klerkastjórnina.

Leiðtogar vestrænna ríkja höfðu litlar mætur á Ahmadinejad þegar hann var forseti Írans frá 2005 til 2013 vegna harðlínustefnu hans og afneitun á helför nasista gegn gyðingum. Hann var ekki kjörgengur árið 2013 en þá vann Hassan Rouhani, núverandi forseti, afgerandi sigur. Hann hefur þótt tilheyra hófsamari væng íranskra stjórnmála.

Framboðsfrestur fyrir forsetakosningarnar rennur út á laugardag. Þá fer tólf manna nefnd, svonefnt varðmannaráð, yfir frambjóðendur og pólitíska og trúarlega hæfni þeirra, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sex fulltrúar í ráðinu eru skipaðir af Ali Khamenei, æðstaklerki og æðsta leiðtoga Írans.

Khamenei studdi Ahmadinejad á sínum tíma, þar á meðal eftir að endurkjör þáverandi forsetans urðu kveikjan að hörðum mótmælum í landinu árið 2009. Öryggissveitir klerkastjórnarinnar börðu mótmælin niður af mikilli hörku. Í kekki kastaðist á milli Ahmadinejad og Khamenei eftir að sá fyrrnefndi hóf að tala fyrir því að vald klerksins yrði takmarkað. Varðmannaráðið taldi Ahmadinejad ekki hæfan til að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 2017.

Undanfarin ár hefur Ahmadinejad talað fyrir umbótum á íranskri stjórnskipun, þar á meðal á völdum æðsta leiðtogans. Hann er sagður sækja stuðning sinn til fátækra og verkamannastéttar sem hefur átt erfitt uppdráttar í efnahagsþrengingum sem eru meðal annars tilkomnar vegna refsiaðgerða Bandaríkjastjórnar.

Rouhani forseti er ekki kjörgengur í kosningum vegna takmarkana í stjórnarskrá á hversu lengi forseti getur setið í embætti. Harðlínumenn eru taldir fylkja sér að baki Ebrahim Raisi, þekkts klerks og forseta hæstaréttar landsins, bjóði hann sig fram. Aðrir möguleikir frambjóðendur harðlínumanna drægu sig þá í hlé til þess að dreifa ekki atkvæðum þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×