Erlent

Áttatíu herþotur yfir Gasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Margar loftárásir hafa verið gerðar á Gasa.
Margar loftárásir hafa verið gerðar á Gasa. AP/Hatem Moussa

Her Ísraels tilkynnti skömmu fyrir fjögur í dag að áttatíu herþotur yrðu notaðar til að gera árásir á um 150 skotmörk á Gasa-ströndinni, einu þéttbýlasta svæði heims. Markmiðið væri að gera útaf við getu Hamas-Samtakanna til að skjóta eldflaugum á Ísrael.

Hundruðum eldflauga hefur verið skotið frá Gasa að Ísrael á undanförnum sólarhring. Ísraelar svöruðu því með umfangsmiklum loftárásum. Minnst 28 Palestínumenn hafa fallið í þeim og þar á meðal tíu börn. Palestínumenn segja minnst 152 hafa særst.

Tveir Ísraelsmenn hafa fallið vegna eldflaugaárásanna og tugir eru sagðir hafa særst.

Hidai Zilberman, talsmaður hers Ísraels tilkynnti aðgerðina í dag og tók hann fram að aðgerðum hersins á Gasa myndi ekki ljúka í dag. Var það í takt við yfirlýsingar Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra, og Benny Gantz, varnarmálaráðherra.

Samkvæmt Times of Israel hefur herinn kallað út meðlimi varaliðs í suðurhluta landsins og sent liðsauka til nokkurrar herdeilda við Gasa, Gólanhæðir og víðar.

Mikil spenna hefur verið í Jerúsalem síðustu daga. Spennuna má rekja til þess að Ísraelar ætla sér að reka Palestínumenn frá hverfi í Austur-Jerúsalem, sem landtökumenn hafa sölsað undir sig. Palestínumenn vilja að borgarhlutinn verði höfuðborg sjálfstæðs ríkis þeirra í framtíðinni en Ísraelar hafa hersetið svæðið frá 1967.

Spennuna má einnig rekja til umsáturs ísraelskra lögregluþjóna um al-Aqsa moskuna í Jerúsalem og hefur komið til átaka lögregluþjóna við fólk þar. Hundruð eru slösuð eftir átökin.

Sjá einnig: Mikil átök milli mótmælenda og lögreglu á Musterishæð

AP fréttaveitan segir embættismenn í Egyptalandi reyna að miðla milli fylkinga, eins og þeir hafa ítrekað gert áður. Það hafi þó lítinn árangur borið hingað til.

Ísraelar virðast hafa lagt sérstaka áherslu á að fella leiðtoga Hamas-samtakanna og Islamic Jihad. Herinn birti til að mynda myndband í dag af árás á fjölbýlishús þar sem einn leiðtogi IJ var sagður halda til.


Tengdar fréttir

Fjölda eldflauga skotið að Ísrael

Tugum eldflauga hefur verið skotið frá Gasa að Ísrael og Jerúsalem í dag. Forsvarsmenn Hamas höfðu gefið yfirvöldum Ísraels frest til klukkan þrjú í dag, að íslenskum tíma, til að yfirgefa al-Aqsa moskuna á musterishæð.

Mikil átök milli mótmælenda og lögreglu á Musterishæð

Palestínskir heilbrigðisstarfsmenn segja minnst 278 Palestínumenn hafa særst í átökum við ísraelska lögregluþjóna við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem í morgun. Þar af hafi minnst tugir þurft á sjúkrahús til aðhlynningar.

Fjöldi særður eftir átök við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem

Ísraelskir lögreglumenn skutu gúmmíkúlum og blossasprengjum að Palestínumönnum sem köstuðu steinum og flöskum í hörðum átökum við al-Aqsa-moskuna á Musterishæðinni í Jerúsalem í gærkvöldi. Að minnsta kosti 163 Palestínumenn eru sárir og sex ísraelskir lögreglumenn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.